06.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í B-deild Alþingistíðinda. (28)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Sigurður Hjörleifsson:

Það eru nokkur atriði í fjáraukalögunum, sem eg vildi fara nokkrum orðum um. Fyrst er þá tillaga meiri hluta nefndarinnar, að fella burt 40 þús. kr. fjárveitingu til loftskeytasambands milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja. Þetta mál hefir þegar verið mikið rætt á þinginu, svo að eg býst við að margir háttv. deildarmenn hafi nú myndað sér fasta skoðun í því. Eg lít því svo á, að það sé ekki til annars en að tefja tímann að vera að taka upp þær ástæður, sem fram hafa komið á báða bóga, eða að fjölyrða um það. Vér erum ekki fagmenn í þessu efni, heldur höfum vér myndað oss skoðun um málið hver um sig á sinn hátt. Eg vil taka það strax fram, að eg mun greiða atkvæði á móti tillögu meiri hluta nefndarinnar. Eg vil að loftskeytasambandið fáist og að fjárveitingin haldist. Um þetta mál hefir verið margt sagt, en fyrir mér vaka tvær aðalástæður til að vera með loftskeytasambandi. Sú fyrst, að með þessu móti væru slegnar 2 flugur í einu höggi: Sæmilegt loftskeytasamband milli Íslands og skipa í hafi, og samband milli Vestmannaeyja og lands. Og þetta tvent fyrir ekki meira fé en þyrfti til hins sambandsins. Það hefir reyndar verið færður niður hinn áætlaði kostnaður við lagningu símans um 5000 kr. Sá kostnaður var áætlaður af símastjóranum upphaflega 42 þús. kr., en nú er það fært niður í 37 þús. kr. En það getur ekki verið gjört með öðru móti en að verkið verði ófullkomnara, færri staurar, eða eitthvað annað, sem veldur því að koma má því upp í bráð, en gjöra þarf við fljótlega. Eins og menn vita, er hægt að leggja símann mjög misjafnlega, enda er þá endingin eftir því. Þetta var önnur aðalástæðan. Hin er sú, að með þessu er opnaður vegur til að fá ódýrt samband austur á bóginn. Með því að reisa loftskeytastöð í Vestmannaeyjum er mögulegt að hafa litlar stöðvar í Skaftafellssýslunum, sem annars mundi kosta offjár að koma í símasamband við aðalsímakerfið. Til Hornafjarðar yrði að leggja símann frá Djúpavog, og til Víkur frá Ægissíðu.

Af þessum ástæðum greiði eg atkvæði þannig að þessi liður standi eins og hann er í fjáraukalagafrumvarpinu. Mér finst ekki lítilsvirði sú hætta að símasambandið geti slitnað, eða að það sé dýrt og örðugt að bæta það.

Annað atriði, sem eg vildi minnast á, er háskólamálið. Það er fjárveiting, sem hér er verið að smeygja inn í fjáraukalögin. Þessi fjárveiting, sem hér er farið fram á, er ekki nema lítilræði, svo að ef ekki væri um annað meira að tefla, skyldi eg ekki deila um hana. En hér er verið að stofna til þýðingarmikils verks, og að sjálfsögðu stendur ekki á sama, hvernig til þess er stofnað í fyrstu. Eins og málið horfir nú við, þá er hér verið að hækka laun einstakra manna. Og auk þess að bæta við kenslu í sérfræðigrein, sem eg annars er hlyntur að komist á. En eins og hér er af stað farið, get eg ekki verið með þessu. Mér finst eitthvað svo leiöinlegt að vera að stofna háskóla svo að ekki verði eftir því tekið. Mér finst ekki hægt að stofna hann fyr en við höfum fengið sæmilegt hús fyrir hann og hægt er að gjöra hann sæmilega úr garði. Því hefir verið haldið fram, að það mætti hafa háskólann hér í Alþingishúsinu. Eg skal ekki mikið um það segja annað en það, að eg hefi enga trú á, að slíkt húsnæði gæti orðið til frambúðar. Eg held það yrði að eins rétt í svipinn.

Það hefir verið sagt, að það mætti selja prestaskólahúsið og fá þannig inn nokkuð af kostnaðinum. En það má gera það alveg eins fyrir því, þó að enginn háskóli sé stofnaður. Það má flytja þessar deildir, sem nú eru til, saman í alþingishúsið og sjá hvort hægt er að komast af með það húsrúm, sem hér er. Ef það er tiltækilegt á annað borð húsrúmsins vegna, þá er vert að gera þessa tilraun að flytja deildirnar saman. Og það gæti líka vel komið til tals, að veita fé til að stofna nýja deild og kenna þar íslenzka málfræði og sögu, eins og gert er ráð fyrir í háskólalögunum. Þetta má alt gera án þess að stofna háskóla að svo stöddu. Mér finst einnig að stofnun háskóla sé svo merkilegur viðburður í sögu þjóðarinnar, að það væri vel við eigandi að bjóða nokkrum útlendingum að vera viðstaddir þá athöfn. En eigi að stofna háskólann á komandi sumri og á þennan hátt, sem gert er ráð fyrir, þá virðist mér það gert af svo miklum vanefnum, að ekki sé gerandi að bjóða útlendum gestum til slíks.

Svo er enn eitt. Mér er sagt að 17 nemendur muni útskrifast úr lærða skólanum í vor og að þeir muni nálega allir ætla að sigla, þrátt fyrir það að nú er verið að ráðgera að stofna hér háskóla. Hvers vegna? Auðvitað af því að þeir eru miklu betur styrktir til námsins við Kaupmannahafnarháskóla en hér. Það er svo nauðalítið lagt til þeirra mentastofnana, sem þegar eru hér, og þarf að bæta

úr því til muna, bæta kjör nemendanna til þess að þeir kjósi ekki fremur að stunda nám sitt annars staðar. En að fara nú í þess stað að tildra upp háskóla, það er að byrja að byggja ofan að í staðinn fyrir að neðan. Hvernig ætti sá háskóli að geta kept við Hafnarháskóla, þar sem til eru stórir sjóðir til styrktar nemendunum? Það er eðlilegt að nemendur, sem flestir eru fátækir, dragist fremur þangað sem hjálp er að fá, en að þeir fari að stunda nám hér, þar sem þeim er synjað um hjálp. Þess vegna finst mér að þeir sem álíta, að vér séum nú sem stendur illa staddir fjárhagslega, ættu heldur að vilja bæta nokkuð við þann styrk, sem nemendum er veittur við skólana hér, heldur en að fara að stofna til kostnaðar við háskóladeild, sem enginn veit hve mikill kann að verða.

Af þessum ástæðum telur minni hluti nefndarinnar rangt að stofna háskóla að svo stöddu.

Þriðja atriðið, sem eg vildi minnast á, er ferðakostnaður síldarmatsmanns til að kynnast síldarverkun og síldarmarkaði í útlöndum. Eg hefði reyndar getað slept að minnast á þetta atriði eftir þeim kurteislegu orðum, sem háttv. framsögum. viðhafði um þetta mál í ræðu sinni. En af því að ummælin um þetta í nefndarálitinu eru ekki eins kurteis, get eg ekki gengið alveg fram hjá því. Þar er sagt, að þessi ráðstöfun stjórnarinnar, sem hér er um að ræða, sé „vítaverð“. Slíkum ummælum verð eg að mótmæla. Það komu fram í nefndinni miklar ákúrur til fráfarandi ráðherra út af þessu. og því var auðvitað ekki gleymt, að maðurinn, sem í hlut átti, er systursonur hans. Hinc illae lacrymae. Þetta, að hann er systursonur Björns Jónssonar, er sjálfsagt ástæðan til þess, að svona mikill gauragangur hefir verið gerður út af nokkur hundr. kr. fjárveitingu til þess að reyna að efla einn af aðalatvinnuvegum landsins. Eg vil fastlega mótmæla því að þessi ráðstöfun fyrv. ráðherra sé á nokkurn hátt vítaverð. Ennfremur segir í nefndarálitinu, að engin skýrsla hafi komið frá þessum manni um ferðina. En skýrslan var send stjórnarráðinu í síðastl. september og er hér nú til sýnis. Hún hafði verið lánuð útgefanda Andvara, sem var að hugsa um að gefa hana út, og því hefir hún ekki verið lögð fram fyrri. — Í annan stað skal eg geta þess, að mér hefir nýlega borist hraðskeyti frá helztu síldarútgerðarmönnum á Akureyri, á þessa leið:

„Að sumarið 1909 hafi undirritaðir útgerðarmenn álitið nauðsynlegt að síldarmatsmaðurinn á Akureyri ferðaðist til Bandaríkja Norður-Ameríku og víðar til að kynnast markaðshorfum m. m. fyrir íslenzka síld, vottast hér með. Ennfremur teljum vér fjárveitingu til þeirrar ferðar nauðsynlega og sjálfsagða.

Akureyri 4. apríl 1911.

Asgeir Pétursson, Otto Tulinius, Snorri Jónsson, Ragnar Ólafsson.“

Það eina, sem fundið var að reikningi þessa manns yfir ferðakostnaðinn, var það að kostnaðurinn við dvöl hans í New York þótti nokkuð hár. En um það get eg gefið þá bendingu, að á meðan hann dvaldi þar, varð hann að kaupa sér túlk fyrir 10 dollara á dag.

Sá flokkur, sem eg telst til, hefir oft samþykt margvíslegar fjárveitingar Hafsteinsstjórnarinnar, er gerðar voru umfram alla heimild í fjárlögum eða fjáraukalögum, og voru sumar þeirra þó þess eðlis, að vel mátti gera deilu úr þeim. Því þykir mér það illa viðeigandi að kalla sams kona .ráðstafanir af hendi Sjálfstæðisflokksstjórnarinnar „vítaverðar“, og það eins þarfa ráðstöfun og þá sem hér er um að ræða.