27.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í B-deild Alþingistíðinda. (2801)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Sigurður Gunnarsson:

Hér liggja fyrir nokkrar breytingartillögur við þetta fjáraukalagafrumvarp. Eg vil fyrst leiða athygli að breytingartill. á þskj. 684. Er eg henni meðmæltur, það er styrkur til Blönduósskólans, því mér finst það hérað, sem hefir haldið þennan skóla, ætti betra skilið, en að þessum litla styrk væri kipt burtu. Sýslan hefir sýnt hinn mesta dugnað í sínu kvennaskólamáli, og flestar sýslur landsins notið góðs af, þar sem skólinn hefir verið sóttur víðast af landinu.

Einnig er eg meðmæltur tillögunni á þgskj. 781, er gerir ráð fyrir tillagi til loftskeyta milli lands og Vestmannaeyja og jafnframt stöðva í Skaftafellssýslum, án þess eg vilji fara að deila um loftskeyti og síma, eða samanburð á þeim tveimur samgöngutækjum.

Þá er breyt.till. sem lýtur að því, að koma háskólalögunum í framkvæmd seint á þessu ári, en stofnun hans þó bundin við aldarafmæli Jóns Sigurðssonar og vildi eg eyða nokkrum frekari orðum um þessa tillögu. Eg hefi verið með háskólamálinu frá því er mér veittist fyrst sá heiður að taka þátt í meðferð málsins hér á þingi 1893. Ekki get eg að vísu hrósað mér af því, að eg hafi lagt mikið starf í málsmeðferðina öðru vísi en með meðmælum mínum á mannfundum og á þingi, og með atkvæði mínu þar. En eg þykist geta hrósað mér af því, að eg hafi skilið málið, skilið þýðingu þess fyrir fósturjörð mína, frægð hennar og sjálfstæði. Og þó er þetta ekki mjög hrósvert af mér sérstaklega, því eg er viss um, að allir þingmenn og allir hugsandi menn þjóðarinnar skilja það eins vel og eg. Það er ekki þetta sem ber á milli, heldur hitt, að sumir halda því fram, að undirbúningurinn sé ekki nógu góður. Enn fremur fjárhagur slæmur. Sumir gera og lítið úr því, að binda byrjun hans við aldarafmæli Jóns Sigurðssonar, af þeirri ástæðu, að Jón hafi lítið eða ekkert skift sér af því máli. Þessi síðasttalda ástæða virðist mér lítils virði, og hinar aðrar líka, þar sem um slíkt mál sem þetta er að ræða. Undirbúning sé eg ekki að þurfi svo mikinn. Þrjár háskóladeildir eru til fyrir dugnað og sjálfstæðisþrá landsmanna (prestaskóli, læknaskóli og lagaskóli) ; að eins hinni 4. deildinni þarf að bæta við, og það þeirri deildinni, sem íslenzkust er í eðli sínu, kenslu í alíslenzku máli og alíslenzkum fræðum. Um fjárhaginn er það að segja, að eg sé ekki betur, en að þingið sé einmitt nú að koma honum í viðunanlegt horft, og þó játa megi, að nokkuð sé þröngt um fjárhaginn, má ekki slíkt stórmál gjalda þess. Eg vil minna á, hve stórkostlega mikið Norðmenn, frændur vorir, lögðu á sig, er þeir fyrir 100 árum voru að koma upp sínum háskóla. Allur heimurinn dáðist að þeirri sjálfsafneitun, er kom fram hjá þeim í því máli. Nú höfum vér samþykt háskólalög fyrir 2 árum, og óviðfeldið er það, einkum út á við, ef það dregst öllu lengur, að orð verði þar að athöfn. Og ekki sé eg betur en að næga lærða menn eigum vér til að skipa í kennarasætin, þar sem þess er þörf. Eg vil bæta því við, að til allrar guðs lukku, er þetta mál ekki flokksmál, það er of stórt, mér liggur við að segja: það er of heilagt mál til þess. Og ekki get eg leitt mér í hug, að nokkur ráðherra, hvað sem hann héti, Pétur eða Páll, og hverjum flokki sem hann heyrði, mundi dirfast — þótt hann langaði til, sem eg geri alls ekki ráð fyrir — að hann mundi dirfast, segi eg, að kjósa aðra menn til að leggja fyrsta grundvöll að vísindalegum heiðri lands vors, en þá menn, er að almanna dómi eru til þess færastir, hverjum pólitískum. flokki, sem þeir heyra.

Háttv. 1. þ. m. Rvk. (J. Þ.) lét svo um mælt, að, að því er kæmi til íslenzku deildarinnar, væri alt sem óyrktur akur, engu síður en fyrir mörgum árum. Nú vil eg spyrja, ef þetta er rétt, sem eg neita: sá ekki háttv. þm. þetta árið 1909? Og ef honum var þetta svo ljóst þá, hví lagði hann þá svo mikið kapp á að fá háskólalög vor samþykt á því þingi? Nei. Þetta er viðbára ein. Það mætti ef til vill færa ýms rök fyrir því, að allir þeir góðir Íslendingar, sem unnið hafa að því að kenna oss að skoða oss sem sjálfstæða þjóð, hafi reist þjóðinni hurðarás um öxl. Vera má að einhver gerist til að halda því fram, að vér þolum ekki fámennis og fátæktar vegna að vera sérstök þjóð. Frá vissu sjónarmiði, þó ógöfugt sé, skil eg þá rökfærslu. Það kostar auðvitað minna — í bráð — að vera Færeyingar. En samt er það nú svo, að enginn málsmetandi Íslendingur hefir borið það í munn sér enn í dag, síðan vér vöknuðum, að það væri ekki helg skylda hvers góðs Íslendings, að vinna að því sýknt og heilagt, að Íslendingar yrðu sjálfstæðir, ekki sízt sem vísindaþjóð, ekki að eins í orði, heldur og á borði.