01.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í B-deild Alþingistíðinda. (283)

30. mál, laun sóknarpresta

Framsögum. Kristinn Daníelsson:

Mér skildist svo sem hv. síðasti ræðum. vildi ekki kannast við, að handahóf kæmi fram eftir eldri reglunni, er farið er eftir núgildandi lögum, og hann hélt því fram, að þar væri farið eftir fastskorðuðu „principi“. En eg fæ ekki séð, að þar sé um „princip“ að ræða. Menn verða að gæta þess, að regla og „princip“ er ekki hið sama. Eg kalla það ekki „princip“, sem leiðir til handahófs eða ef það, sem eg vildi kalla reglu, á skilið að kallast „princip“, þá er það „princip“, sem leiðir til handahófs. Því að hvað er handahóf, ef ekki það, að 9 eða 11 prestar verða að bíða eftir 10. eða 12. prestinum til þess að komast upp í hærri launaflokk. En ef til vill gætu þeir, ef það stæði ekki svona á, komist upp í hærri flokk. Eg játa fúslega, að það sé skylda vor þingmanna að gæta hagsmuna landssjóðs. En það verður líka að gæta hins, að öllum þjónustumönnum landsins sé gert jafn rétthátt undir höfði, að réttlætinu sé ekki gleymt. Þeir sem nú lifa og nú verða fyrir halla, fá engar bætur mála sinna, þó að seinni tímamenn verði ekki fyrir sama hallanum. Þeir fá enga leiðrétting mála sinna, er þeir eru dauðir.