03.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í B-deild Alþingistíðinda. (288)

30. mál, laun sóknarpresta

Jósef Björnsson:

Það gladdi mig sannarlega er eg heyrði, að hv. framsögum. var mér samdóma um það, að auknar vegabætur hefðu þegar gert prestum miklu léttara fyrir. Eg er honum líka alveg sammála um það, að sameining brauða hefði verið óhugsanleg, nema með auknum og bættum samgöngum. Hv. framsm. vildi þó ekki viðurkenna, að störf presta væru nú að ýmsu leyti mun léttari en verið hefði; taldi þar sínu máli til stuðnings, að fræðsla barna og unglinga hvíldi engu léttara á prestunum, en verið hefði hingað til, og þar að auki væri þeim að mörgu leyti gert örðugra fyrir, eftir að prestaköllin stækkuðu með brauðasamsteypulögunum. En eg vil nú minna hv. framsögum. á það, að, að því er til hinna stækkuðu prestakalla kemur, þá er til erfiðleikauppbót, eigi alllítil, sem skift er niður á milli örðugustu brauðanna. Og eins og eg tók fram í upphafi, þá verður því ekki neitað með rökum, að kjör presta eru nú svo stórvægilega bætt, að vel má við una. Hv. framsögum. hélt fast við það, að prestar hefðu yfirleitt meiri störfum að gegna vegna framþróunar mannfélagsins, en átt hefði sér stað hingað til. Hver mundu þau störf vera? Sennilega störf, sem þeir taka á sig sjálfviljugir, óviðkomandi embættinu. Ekki getur komið til mála, að landssjóður eigi að blæða fyrir það, þó þeir vasist í ýmsu, er þeir gætu vel leitt hjá sér.

Að lokum vil eg taka það fram, að hér er auðvitað ekki að ræða um fjölgun presta, heldur að eins að gera jafnmarga presta að dýrari prestum, og því er samlíking frams.m. um þörf á auknu hjúahaldi og af því stafandi aukinn kostnað fyrir bóndann óviðeigandi.