07.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í B-deild Alþingistíðinda. (294)

49. mál, dánarskýrslur

Kristinn Daníelsson:

Á síðasta þingi kom eg fram með nokkrar breytingartillögur við frumvarp þetta. Eg sé að það er nú aftur komið í sömu mynd, sem það þá fór í héðan úr deildinni. Eg er enn þeirrar skoðunar, að breytingartillögur mínar væru til bóta þar sem á þann hátt, sem þær fóru fram á, mætti vinna það sama sem með frv. vinst, nefnilega með því, að prestarnir gæfu dánarskýrslur að viðbættu því, sem þeir vissu um dauðameinin, og mundu svo læknarnir leiðrétta þær, þar sem þeir vissu betur. Við þetta sparaðist ómak og kostnaður fyrir hlutaðeigendur, en skýrslurnar gætu þó komið að sama gagni.

Eg kem þó ekki fram með neinar breytingartillögur nú. Deildin er skipuð sömu mönnum og síðast og mundu þá úrslitin væntanlega verða hin sömu.

Eg vil ekki óska að háttvirt neðri deild fari með frumvarpið svo sem hún fór með frumvarpið á síðasta þingi, er hún feldi það við 1. umr., en æskilegt þætti mér, að þar kæmust að breytingartillögur í sömu átt, og eg hefi farið fram á.