20.02.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (307)

171. mál, lögaldursleyfi

Ráðhr. (B. J.) :

Virðul. þingdeildarmenn sjá alt það, sem um þetta frumv. er að segja frá stjórnarinnar hálfu, í athugasemdunum við það. Stjórnin hefir orðið við áskorun síðasta alþingis, þar sem hún ber nú fram frumvarp, er greiðir fyrir því að fá lögaldursleyfi. Hins vegar hefir stjórnin ekki viljað bera fram, að þessu sinni, nýjan lagabálk um persónulegt og fjárhagslegt fullræði, vegna þess að lagafrumvarp þess efnis er í smíðum hjá nefnd, er skipuð hefir verið meðal nágrannaþjóðanna þriggja, Dana, Norðmanna og Svía. Stjórnin treystir því, að sú lagasmíð muni vel takast og treystir ekki íslenzku löggjafarvaldi til að gera það betur. Vill því láta málið bíða þangað til sú nefnd hefir lokið starfi sínu, til þess að geta hagnýtt sér þá aðstoð, heldur en að fara að skrásetja nýjan lagabálk um efni, sem engar ástæður eru til að hafa öðruvísi lög um, en frændþjóðir vorar á Norðurlöndum. —

Annars er það fullskýrt, hvað í frumvarpi þessu felst og mun því óþarft að fara fleiri orðum um það að svo stöddu.