20.02.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (308)

171. mál, lögaldursleyfi

Lárus H. Bjarnason:

Það er ánægjulegt að heyra, að hæstv. ráðherra ætlar að sýna lítillæti og láta sjá sig oftar hér eftir en hingað til hér í deildinni. En ennþá ánægjulegra væri það, ef hæstv. ráðherra vildi skýra betur mál þau, sem hann leggur fyrir deildina, heldur en hann hefir gert hingað til. — Eg sagði það hér á dögunum, að það lítið, sem væri nýtilegt í frumvörpum stjórnarinnar, væri lán frá öðrum, t. d. eru tveir lagabálkar, sem stjórnin ber fram, lagðir út úr dönskum lögum, frumv. til siglingarlaga og frumv. til alm. viðskiftalaga. Eg gat þess jafnframt, að það sem stjórnin hefði lagt til frá eigin brjósti, væri sára lítils vert. Ein sönnun þess er þetta frumvarp, sem hér er til umræðu.

— En eg gleymdi þá að geta þess, að ráðherra hefir tekið upp nýja aðferð við undirbúning laga. Hann hefir fundið uppá því að leggja stjórnarfrumvörpin fyrir konung í ríkisráðinu á dönsku en ekki íslenzku.

( Forseti: Frumvarpið er til umræðu.)

Eg veit það, en eg tek það fram, að þetta frumv. er ein sönnun þess, að það er satt, sem eg hefi sagt.

Á síðasta þingi var samþykt tillaga til þingsályktunar, sem eg skal leyfa mér að lesa upp með leyfi forseta: „Efri deild alþingis ályktar að skora á landstjórnina að rannsaka gildandi lög um persónulegan og fjárhagslegan myndugleika og leggja fyrir næsta alþingi frumvarp til laga um alt það efni“, Alþt. 1909 A. nr. 270. Í staðinn fyrir það, fær maður nú, mér liggur við að segja, hégómann þann arna. Það er hégómi miðað við núgildandi lög, því að nú geta menn, sem orðnir eru 21 árs, fengið lögaldursleyfi, þeir þurfa aðeins að snúa sér til stjórnarráðsins og greiða lögákveðið gjald. Breytingin er aðeins í því fólgin, að eftir frumvarpinu eiga menn að geta fengið lögaldursleyfið hjá bæjarfógeta eða sýslumanni og fyrir minna gjald. Eg vona að hæstv. ráðh. kannist við það, að þetta er hégómi í sambandi við það, sem ætlast var til. Þetta er rétt, sem ráðherra gat um, að á meðal Norðurlandaþjóðanna er í undirbúningi að semja sameiginlegan kröfubálk og sifjabálk. En frumvarp þetta heyrir ekki til þessum bálkum, þó kann það rétt að vera, að sú nefnd, sem um þau efni á að fjalla, eigi líka að fjalla um þetta. En ólíklegt þykir mér það þó, því að bæði í Noregi og Svíþjóð er lögaldurstakmarkið miklu lægra en í Danmörku, og eins lágt og gerist annarsstaðar, og því ólíklegt, að þeir hugsi til að færa það enn niður, enn ólíklegra að þeir fari að hækka það aftur til þess að nálgast Dani. Það er því ekkert nema fyrirsláttur af hæstv. ráðherra að bera biðina eftir þeirri nefnd fyrir sig sem afsökun. Hafi hann ekki haft vit á að undirbúa þetta lagafrumvarp eftir því, sem fyrir hann var lagt, þá átti hann að leita aðstoðar annarra um það Hann hefir nóga aðstoðarmenn í stjórnarráðinu, sem færir hefðu verið um það og er því fullkominn óþarfi af stjórninni að leita til annarra landa um undirbúning lagafrumvarpa, enda hefði hæstv. ráðherra einnig getað leitað aðstoðar lagaskólans. Eg sé að hæstv. ráðherra hlær, en eg vil minna hann á, að aðrar stjórnir láta sér enga lægingu í þykja að leita til fagmanna í slíkum efnum. Ekki svo að skilja, að eg sé neitt að harma það, að stjórnin hefir ekki leitað neitt til mín, það eru fleiri fagmenn til við lagaskólann. En eg vildi aðeins taka það fram, að það hefði verið stjórninni innan handar, með aðstoð færra manna, að undirbúa nýtilegt frumvarp í þá átt, sem einróma var óskað hér í deildinni á síðasta þingi. Hið réttasta svar frá deildinni væri að fella frumvarpið, til þess að láta hæstv. ráðherra vita það, að deildin lætur ekki bjóða sér alt; þó vil eg ekki gera það að tillögu minni, því að hér í deildinni eru lögfræðingar t. d. þingm. Borgfirðinga, sem vel er trúandi til að geta lagfært frumv. svo að við sé unandi. Þessvegna skal eg leyfa mér að leggja það til að frumv. gangi til annarrar umræðu og skipuð verði nefnd í málið að þeirri umræðu lokinni.