17.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í B-deild Alþingistíðinda. (313)

171. mál, lögaldursleyfi

Framsögum. (Lárus H. Bjarnason):

Eg get að mestu leyti vísað til álits nefndarinnar í Ed. 1909 í máli snertandi lögaldur, er þá var á ferðinni, og til orða þeirra, er eg talaði þá hér í deildinni. Eins og allir lögfróðir menn vita, eru elztu núgildandi ákvæði um lögaldur mjög gömul, frá síðasta fjórðungi 17. aldar, en yngstu ákvæðin aftur mjög ung, að eins nokkurra ára. Það ræður að líkindum, að svo misjafnlega gömul lög hljóta að vera mjög svo ósamkvæm. Það var líka einróma skoðun nefndarinnar 1909, að ef ætti að hreyfa við þessu máli á annað borð, þá þyrfti að rannsaka öll ákvæði, sem nú gilda um myndugleika, ekki einungis fjárhagslegan, heldur einnig persónulegan myndugleika, og koma þeim saman í eina heild. Enda skoraði deildin á stjórnina með 13 samhl. atkv. að undirbúa mál þetta undir þingið nú, og leggja fyrir það frumvarp um alt þetta efni. Nú gefst mönnum að sjá árangurinn af þessari áskorun. Hann er ekki annað en ein örlítil og óþörf bót á þetta gamla og slitna klæði. Breytingar þær frá núgildandi ákvæðum, sem farið er fram á í frv., eru að eins tvær, í fyrsta lagi, að sýslumenn og bæjarfógetar geti veitt lögaldursleyfi 21 árs gömlum konum og körlum, og í öðru lagi, að leyfisbréfið skuli ekki kosta meir en 10 kr. Hvorttveggja breytingin er lítils virði. Um þá fyrri er það að segja að 21 árs gamlir menn geta líka nú fengið lögaldursleyfi, en verða að sækja um það til stjórnarráðsins. Með breytingunni er því að eins farið fram á að stytta þessum mönnum leiðina. En úr þessari stytting á leiðinni er ekki mikið gerandi nú þar sem svo auðvelt er orðið að ná til stjórnarráðsins. Sömuleiðis er lítil bót að lækkuninni á gjaldinu, og kemur hún fáum að haldi, því að sára sjaldan kemur það fyrir, að yngri menn en 22 ára sæki um lögaldursleyfi. Hv. ráðherra, sem var formaður nefndarinnar, sagðist að eins vita um 2—3 tilfelli, og eg þekki að eins 2 og alt voru það menn, sem ætluðu að fara að stofna verzlun. Hér virðist því ekki vera um neina almenna þörf að ræða. Þetta frv. er því ekkert annað en kák, og er það því óskiljanlegra, að fráfarin stjórn skuli hafa haft fyrir að semja það, þar sem mikið er dregið úr heimildinni til að veita lögaldursleyfi, þeim, sem eiga meir en 200 kr., en þeir mundu miklu fremur sækja um það, en sem minna eiga. Vitanlega sækja þeir menn helzt um lögaldursleyfi, sem einhver efni eiga og ætla að ráðast í eitthvað, svo sem verzlun eða því um líkt. Og af þessum ástæðum hefir nefndinni komið saman um að leggja til, að frv. verði felt, en jafnframt að samþykt verði á sínum tíma tillaga til þingsályktunar líkt orðuð og sú, sem samþykt var á síðasta þingi. Má vænta þess, að betri árangur verði nú af slíkri tillögu, heldur en varð af tillögu síðasta þings.