18.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í B-deild Alþingistíðinda. (319)

107. mál, úrskurðarvald sáttanefnda

Framsögumaður (A. J.):

Eg skal ekki vera margorður um þetta mál. Eg vil leyfa mér að taka það fram, að eins og frumvarp þetta lá fyrir háttv. efri deild á síðasta þingi, þá var eg því mótfallinn. Eins og það er nú breytt, og sérstaklega með breytingu nefndarinnar tel eg tiltækilegt að samþykkja það, með því að brýn þörf er á að fá greiðari og fljótari flutning smáskuldamála en nú á sér stað. Það hafa komið raddir utan af landi um að fá breytingu á hinu núverandi fyrirkomulagi, sérstaklega vegna kostnaðarins við innheimtu smáskulda upp til sveita. Það þarf ekki að taka það fram, hvílíkur hagnaður það væri fyrir báða málsparta, skuldheimtumenn og skuldunauta. Það hefir oft komið fyrir, að skuldheimtumaður hefir hætt við, kostnaðarins vegna, að innheimta skuldir sínar. Eins getur það líka verið bagalegt fyrir skuldunauta, að mikill kostnaður leggist á við innheimtu, því á þá kemur hann að lokum. Mönnum hafa dottið í hug aðrar aðfarir, en að fela sáttanefndum úrskurðarvald í þessum málum. Hefir þá einkum komið til mála að stofna sérstakan dómstól með sérstökum málaflutningi, en nefndin hefir ekki getað hallast að því, vegna þess, að það mundi reynast of kostnaðarsamt, eins og til hagar hér á landi.

Nefndin hefir farið fram á nokkrar mikilvægar breytingar og skal eg nú minnast þeirra að nokkru. Það er þá fyrst, að hún fer fram á, að skuldarupphæðin sé lækkuð niður í 50 krónur. Hún var áður í stjórnarfrumvarpinu 100 krónur. Í öðru lagi fer hún fram á, að sáttanefnd megi úrskurða, að hvaða mál sem er gangi til dómstólanna. Í þriðja lagi vill hún takmarka svið sáttanefndanna, með því að leyfa eigi að gagnkröfu sé hleypt að. Aðalbreytingartillaga nefndarinnar er við 4. gr. Þar segir í frumvarpinu: „Nú telur sáttanefnd óheimilt úrskurð að gera, og vísar hún þá málinu til dóms og laga“. Á þessu vill nefndin gera þá breytingu, að ef sáttanefndin telji málið svo vaxið, að eigi verði kveðinn upp úrskurður í því — henni finnist hún eigi geta það — þá megi hún vísa því til dómstólanna. Þetta er víðtækara. Ef málið er að einhverju leyti svo flókið, að sáttanefndin treysti sér eigi til að úrskurða í því, þá getur hún vísað því frá sér til dómstólanna.

Í 5. gr. frumvarpsins er talað um að varasáttanefndarmaður skuli koma í stað sáttanefndarmanns, þegar hann er forfallaður. Þessu vill nefndin breyta svo, að varasáttanefndarmaður komi í hans stað, þegar hann er forfallaður, „eða af öðrum ástæðum“. T. d. þegar sáttanefndarmaður er skyldur eða tengdur öðrum málsaðila.

Í 11. grein, þar sem getið er um að komi málið til dómstólanna, eiga samkvæmt greininni ekki að geta komið fram mótmæli gegn því, sem viðurkent hefir verið fyrir sáttanefndinni. Þessu vill nefndin breyta þannig eða bæta því við, að til þess að það, sem fyrir sáttanefnd gerist, verði talið fullviðurkent, verði málsaðilar að hafa undirskrifað sáttabókina. Þessu þótti oss rétt að bæta við svo að ekki þyrfti eingöngu að fara eftir sáttanefndinni. Hún gæti verið vilhöll, ef t. d. óvinátta væri milli annars málsaðila og sáttanefndar. En nefndin áleit, að þá fyrst væri ekki hægt fyrir málsaðila að koma fram með mótmæli gegn því, sem hann hefði sjálfur samþykt. Þá hefir nefndin og viljað breyta áfrýjunarfrestinum í 11. grein úr þrem mánuðum upp í fjóra. Hún áleit að þriggja mánaða frestur mundi reynast of stuttur, sérstaklega til sveita. Þá vill nefndin enn gera breytingu í enda 11. greinar og leggur hún til, að felt verði aftan af henni. Það atriði er um sérstakt fyrirkomulag, löggeymslu, og taldi nefndin það ekki eiga heima á þessu svæði. Það er mesta vandaverk að úrskurða um slíkt og þótti oss ekki rétt að leggja það á vald sáttanefnda.

12. gr. frumvarpsins, sem leyfir að beita gagnkröfu, vill nefndin alveg fella í burtu og alls ekki taka gagnkröfu til greina. Það er svo vandasamt og erfitt spursmál að skera úr því, hvenær taka eigi gagnkröfu til greina, að nefndinni þótti fyrst um sinn ekki rétt að fá sáttanefndum úrskurðarvald um það.

Það getur verið, að nefndin kunni að koma með breytingartillögu við c lið 2. gr. við þriðju umræðu og get eg látið bíða að minnast á það þangað til. Eg álít þetta frumvarp ekki annað en tilraun til að ná úrskurði í smáskuldamálum kostnaðarminna en verið hefir. Eg álít það að engu leyti hættulegt, með því að verksvið sáttanefnda er mjög svo takmarkað. Verði þessi tilraun góð, þá geta næstu þing hagað sér þar eftir og bætt við frekara úrskurðasvið sáttanefndanna, ef þeim sýnist svo.