24.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í B-deild Alþingistíðinda. (325)

107. mál, úrskurðarvald sáttanefnda

Ráðherrann (Kr. J.):

Framsögumaður þessa máls, háttv. þingm. Strandam. (A. J.), er veikur. Það vill svo til, að hann er líka flutningsmaður þeirrar breyttill., er komin er fram við frumvarpið. Hann hefir beðið mig að benda háttv. deild á hana. Um leið og eg geri það, skal eg geta þess hvað hefir vakað fyrir honum, er hann stingur upp á, að þessu sé bætt aftan við 2. grein. Fyrir honum hefir vakað það, að takmarka verksvið sáttanefndanna. Þannig, að aukin sé tala þeirra mála, þar er þær mega ekki kveða úrskurð upp. Með þessu frumvarpi er, eins og eg tók fram við síðustu umræðu, gerð tilraun til að fela ólöglærðum mönnum dómsvald á hendur, eins og gert hefir verið með öðrum þjóðum. Með því að hér er um svo felt nýmæli að ræða og þetta á að vera byrjunartilraun hjá oss, hefir háttv. flutningsm. þótt rétt að takmarka verksviðið sem mest. Í því skyni hefir hann flutt breyttill. sína fram. 1. gr. frumvarpsins ákveður, að sáttanefndir skulu kveða upp úrskurð í nokkrum málum, þegar skuldheimtumaður krefst þess. Brtill. fer nú fram á, að ákvæði þessarar greinar skuli ekki gilda, þegar kærði hefir gagnkröfu á hendur kæranda. Spurningin um hvenær gagnkröfu eigi að taka til greina, er eitt af erfiðustu viðfangsefnum dómenda og lögfræðinga, og því er varhugavert að skjóta slíku undir dóm sáttanefnda. Við ræddum þetta atriði talsvert í nefnd, og nefndin komst að þeirri niðurstöðu, að réttast væri að fella burtu 12. gr. stjórnarfrumvarpsins og c-lið 2. gr., en það kom í ljós við nánari athugun, að eigi væri rétt að fella niður c-lið 2. gr. er 12. gr. væri fallin í burtu. — Eg vænti þess, að deildin taki þetta til athugunar.