21.02.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (329)

128. mál, fræðsla æskulýðsins

Ráðherra (B. J.):

Þetta frumv. stjórnarinnar er sprottið af því, að heyrst hafa mjög almennar umkvartanir um fræðslulögin frá 1907. Landslýður kvíðir því að þeim lögum muni fylgja afarmikill kostnaður, ef til vill ókleifur, og mikil fyrirhöfn, en hins vegar álíta margir, að sá fróðleiksforði, sem ætlast er til að börnin öðlist, sé ekki svo mikils virði, sem við mætti búast eftir þeim kostnaði og fyrirhöfn, sem til hans er varið. Margir eru nú farnir að líta svo á, að það sé harla gagnslítið að troða miklum fróðleik í börn á unga aldri, slíkur lærdómur tolli ekki á þeim stundu lengur, sé fokinn burt missiri eða ári eftir, að börnunum er slept úr skóla. Þetta nýmæli, sem stjórnin ber nú fram, er sprottið af þessari hugsun, og stungið upp á að færa saman kvíarnar um kröfurnar til lærdóms barnanna. Það er hugmyndin, að lögin þessi verði að eins umgjörð um nýtt kenslufyrirkomulag, er stjórnin svo fylli upp í með reglugjörðum. Því fylgir sá kostur, að reglugjörðunum er hægra að breyta, eftir því sem reynslan krefst, fljótara miklu en lögum.

Í frumvarpinu eru ekki heimtaðar aðrar námsgreinar til 12 ára aldurs en lestur, skrift, reikningur, réttritun og kristin fræði. En benda má á það, að þar sem krafist er, að börnin kunni að lesa móðurmál sitt sæmilega rétt og áheyrilega, þá hefir það meira í sér geymt en orðin benda á; í því felst krafa um töluverða þekking í móðurmálinu. Til þess að geta lesið vel og áheyrilega verða börnin að hafa lesið mikið, farið yfir margar bækur, og í því felst töluverð mentun, þó að lítið sé lært utanbókar. Yfir höfuð eru uppeldisfræðingar nú á tímum að komast að þeirri skoðun, að mentun sé ekki fólgin í ómeltu fróðleikshrafli, heldur sé sönn mentun fólgin í alt öðru. Meðal annars geti enginn maður kallast vel mentaður, nema hann hafi góða greind, góðan og öflugan vilja og mjúkt og hlýtt hjarta. Þetta og svo og svo mikið annað útheimtist til sannrar mentunar.

Við hliðina á þessari frummentun, sem 12 ára börn eiga að hafa hlotið og er skyldukvöð, er jafnframt ætlast til, að unglingaskólar rísi upp í hverri sýslu eða kaupstað og er ætlast til, að þessir skólar geri líkt gagn og lýðháskólar í öðrum löndum. Það nám á ekki að vera skyldukvöð, en ætlast til, að unglingar sæki þessa skóla eftir því sem þeir eru námfúsir til og álíta sér bezt henta einn eða fleiri vetur eða part úr vetrum. Eg hygg það vera óþarft að lýsa þessu frekar um fram það, sem gert er í ástæðum frumvarpsins. Eg geng að því vísu, að nefnd verði skipuð í málið, og verður þá málið skýrt betur bæði í nefndinni og síðar á þinginu. Því skal eg ekki fjölyrða um málið að svo stöddu, en leyfi mér að mæla með því að nefnd verði skipuð að lokinni umræðu. Eg skal að eins taka það fram, að eg er fús að vinna með nefndinni að svo miklu leyti sem eg kynni að geta gefið henni einhverjar bendingar, er að gagni gætu komið.