21.02.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í B-deild Alþingistíðinda. (330)

128. mál, fræðsla æskulýðsins

Stefán Stefánsson:

Þegar það fréttist að stjórnin ætlaði sér að leggja fyrir þingið frumvarp til nýrra fræðslulaga, þá urðu margir hissa. Mönnum þótti furða að stjórninni skyldi ekki þykja ástæða til að verja tíma sínum til að undirbúa einhver önnur lög fremur en ný fræðslulög, þar sem núgildandi lög um þessi efni, stór lagabálkur, að eins þriggja ára gamall, eru enn þá því nær alveg óreynd, og víða ekki komin í framkvæmd enn. Því þótti mörgum furða, að stjórnin skyldi vilja umsteypa þessum lögum óreyndum og setja nýtt í staðinn. Eg hefi ekki getað kynt mér þetta frumv. stjórnarinnar til hlítar, en mér þykir mjög varhugavert að gera stórkostlegar byltingar í þessum efnum, hvað ofan í hvað. Það er ekki ráðlegt að gera slíkar byltingar nema eftir mjög vandlegan undirbúning og rannsókn á því, hvernig ástatt er um fræðslumál í landinu. En frumv. stjórnarinnar ber ekki með sér, að neinn slíkur undirbúningur hafi átt sér stað. Í athugasemdum frv. segir að eins, að fræðslulögin frá 1907 hafi mætt mikilli mótspyrnu, en engar skýrslur eru gefnar um það, hve víða lögin eru komin í framkvæmd eða í hverju örðugleikarnir eru fólgnir. Eg veit til þess, að víða þar sem lögin eru komin í framkvæmd hafa þau alls ekki mætt neinni verulegri mótspyrnu. Mótspyrnan var mest fyrst í stað og helzt þar sem áður hafði litlu eða engu verið kostað til fræðslumála, því að aðalmótspyrnan móti lögunum var einmitt sprottin af því, að mönnum þótti svo sem hin nýju lög hefðu aukinn kostnað í för með sér. En víða hafa menn fljótt séð það, að hin auknu gjöld til fræðslumála, sem af lögunum stöfuðu, voru ekki öll aukin útgjöld í raun og veru, heldur að miklu leyti að eins að ræða um flutning á gjöldum, sem menn höfðu áður greitt öðru vísi. Og þó að lögin frá 1907 kunni að þykja of kostnaðarsöm, þá liggja ekki fyrir neinar áætlanir um það, hvað þetta fyrirkomulag muni kosta, sem frv. stjórnarinnar gerir ráð fyrir. Eg býst nú við, að stjórnin hafi einhverjar slíkar áætlanir í fórum sínum, en þær þurfa að liggja fyrir þinginu til þess að hægt sé að gera sér nokkra hugmynd um kostnaðinn og bera saman núgildandi lög og frumvarpið að þessu leyti.

Enn fremur skal eg geta þess, að eg hefi heyrt, að stjórnin hafi ekki borið þetta mál undir umsjónarmann fræðslumálanna. Það þykir mér mjög undarlegt, því að hjá honum hlaut þó að vera mestrar fræðslu að vænta, um það, hvernig eldri lögin hafa reynst. Hæstv. ráðherra tók fram, að frumvarpið væri sprottið af almennum umkvörtunum yfir eldri lögunum. Eg geri nú ekki svo mikið úr því, hve almennar þessar umkvartanir hafa verið. Eg veit vel, að lögin hafa mætt mótspyrnu á stöku stað, en eg hefi alls ekki orðið þess var, að almennar umkvartanir hafi heyrst, að minsta kosti ekki á Norðurlandi.

Það sem hæstv. ráðherra tók fram um stefnu þá, sem hann ætlaðist til að væri tekin upp með frumvarpinu, get eg aðhylst. Eg er þeirrar skoðunar, að þó að barnafræðslan sé mikils virði, þá ríði þó enn meira á hinu, að alment sé kostur á góðri unglingafræðslu. En eg veit ekki, hvort frumv. stjórnarinnar bætir nokkuð úr að þessu leyti, það er alveg óvíst, að þeim tilgangi verði náð.

Það sem hæstv. ráðh. sagði um, að sönn mentun væri ekki fólgin í ómeltu fróðleikshrafli o. s. frv. er alveg rétt, en engin nýlunda að heyra þess konar almennar setningar, sem svo að segja eru í hvers manns munni.

Það getur vel verið, að frumv. sé þess virði, að það sé athugað vandlega og mætti ef til vill sjóða upp úr því gott frumvarp. Því vil eg mæla með því, að nefnd verði skipuð í málið, þó að eg sé reyndar ekki þeirrar skoðunar, að þetta frumvarp verði til nokkurra verulegra bóta frá því, sem nú er.