21.02.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í B-deild Alþingistíðinda. (333)

128. mál, fræðsla æskulýðsins

Ráðherra (B J):

Eg skal ekki tefja umræðurnar með löngu svari gegn þessu hégómamáli hins afburða-virðulega konungkjörna þingm., sem eg man ekki í svip númerið á (L. H. B). Hann gerir alt að hégómamáli, sem stjórnin ber fram, en eg verð að játa það, að eg geri lítið úr umsögn þessa yfirmáta-virðulega þingm. og eg er sannfærður um að virðul. þingdeild gerir það ekki heldur. Vér vitum að hann álítur sig vera ofurmenni að vitsmunum, en hann verður að sætta sig við að stjórnarskrá og þingsköp ráða því, að hann getur ekki aleinn ráðið hér lögum og lofum. Hann verður að gera sér það að góðu, að nefnd verði skipuð í málið fyrst um sinn, og það síðan tekið til meðferðar í báðum deildum þingsins.

Þessi virðul. kgk. þm. (L. H. B.) var enn að saka stjórnina um þá vanrækslu, að hún hefði ekki leitað aðstoðar umsjónarmanns fræðslumálanna. Því svaraði eg áðan, og fer ekki út í það aftur. Eg skal að eins bæta því við, að það er hugsanlegt þegar skift er um stjórn, að hin nýkomna stjórn hafi ekki óbilandi trú á öllum þeim starfsmönnum, sem fráfarandi stjórn hefir valið. Eg segi þetta ekki viðvíkjandi þessum manni, því að eg veit, að hann er mikilhæfur maður. En hann hefir, eins og eg gat um áðan, óskaplega tröllatrú á fræðslulögunum frá 1907, og var því til lítils að leita til hans í þessu máli.

Það er alveg rangt, að eftir frumvarpinu sé ekki gefinn kostur á framhaldsmentun eftir 12 ára aldur. Það er öllum frjálst að leita sér mentunar á væntanlegum unglingaskólum. En það eru margir unglingar og þeirra aðstandendur, sem eru ánægðir með barnafræðsluna ýmissa orsaka vegna, og kæra sig ekki um að afla sér frekari mentunar, og slíkir menn eru oft og tíðum engu ónýtari menn en hinir, sem hafa fengið troðið á sig svo og svo miklu fróðleikshrafli. Það er skaðræði að halda, að mentun sé öll fólgin í bókviti. Margur alþýðumaður ólærður er betur mentaður ef rétt er álitið, en sumir hinna, sem miklum fróðleik hefir verið troðið í. Þessi afburða-virðulegi kgk. þm. (L. H. B) var að snúa út úr því, sem eg sagði um það, hvað þyrfti til þess að geta kallast sannmentaður maður. En það var eigi að síður alveg rétt. Sannmentaður er enginn nema hann hafi þessa kosti, sem eg nefndi. Mentun er ekki fólgin í bókviti einu. — Það kom mér ekki á óvart, að þessi virðul. þm. vildi skera niður frv. umræðulaust. Maðurinn veit það, að hann sjálfur er ofurmenni að vitsmunum og því álítur hann að alt, sem frá öðrum kemur, sé lítilsvirði. Þetta mun vera alment hjá honum, og þá er sízt að undra þó að það komi fram gagnvart þessari stjórn, sem nú situr að völdum, því að allir vita, að hann hefir ekki miklar mætur á henni.