27.02.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í B-deild Alþingistíðinda. (347)

20. mál, skoðun á síld

August Flygenring:

Eg vil leyfa mér að lýsa afstöðu minni til síldarmatsmálsins. Mér finst það afaróheppilegt, að lög séu sett, sem kunna að verða til tálmunar sölu vörunnar.

Mér virðist nægilegt að benda á, að svo getur farið, og hefir oft farið svo að undanförnu, að Norðmenn og Svíar hafa komið og keypt síldina sjálfir. Væri það þá hart, að þeim mönnum, sem ætla að kaupa hana, sama sem til eigin neyzlu, sé bannað með lögum að gera það.

Ef ekki flytjandi þessa máls hefði tekið það fram, að það væri almennur áhugi manna nyrðra að fá þessu máli framgengt, þá hefði eg greitt atkvæði á móti því við fyrstu umræðu. En þar sem þetta er þýðingarmikið mál fyrir héraðið nyrðra og enda landið alt í heild sinni, þá álít eg rétt að nefnd sé sett í það, ef vera mætti, að með breytingum mætti gera það skaðlítið.

Auðséð er, virðist mér, að afleiðingar af þessum lögum yrðu tafir miklar og kostnaður á útgerðinni í heild sinni. Hvers vegna ekki fyrst að nota hið frjálsa mat, sem nú er kostur á?

Og hvernig stendur á því, að varan kemur svona skemd til útlanda sem þm. Akureyringa upplýsir um, einmitt frá því héraði, sem kostur er á að fá mat á síld, — þar sem sjálfur yfirmatsmaðurinn landsjóðslaunaði situr? Því ekki að nota síldarmatið eins og fiskimatið hér syðra. Hið frjálsa mat hér áður gafst okkur miklu betur en hið núveranda lögskipaða.

Það er mjög leiðinlegt, að engin reynsla er enn fengin fyrir því, hvaða áhrif lögskipað mat kynni að hafa, þar sem kjörmatið hefir ekki verið notað. — Það álít eg illa farið.

Eg veit að þegar eg tala prívat við hv. framsögumann, þá hlýtur hann að geta gefið mér ýmsar upplýsingar snertandi þetta mál, en fljótt á litið er þetta skyldumat, eins og hver önnur þvingunarlög mjög varhugavert.