21.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

20. mál, skoðun á síld

Framsögumaður (Sigurður Hjörleifsson):

Eg býst ekki við að þurfa að vera langorður um þetta mál. Í nefndarálitinu er nálega alt hið helzta tekið fram, er þótti athugavert við frumvarpið. Það sem mér einkum þykir vert að benda á, er það, að nefndin hallast að því, að aðalatriði frumvarpsins sé haldið, en það er það, að skoðun fari fram á nýveiddri rekneta- og herpinótasíld. En nefndin leggur þó til, að gerð sé sú takmörkun á þessari skoðun, að hún fari að eins fram á svæðinu milli Horns og Langaness, af því að herpinótna og reknetaveiði er aðallega stunduð á því svæði. Nefndinni þótti ekki ástæða til að fara lengra í þessu efni. Annað aðalatriðið í tillögum nefndarinnar er það, að hún leggur til, að lög þessi gildi ekki nema til ársloka 1913, að þau með öðrum orðum gildi að eins til 3 ára. Sumir eru hræddir við þá skyldu, sem hér er lögð þeim á herðar og þótti því réttara að líta á lög þessi sem reglur, er farið væri eftir um skamman tíma. Það er alt af innan handar að gera á þeim breytingar eða framlengja þau, ef þau reynast vel. Þetta er í raun og veru aðalatriðið í þeim breytingum, er nefndin fer fram á, að gerðar séu á frumvarpinu. — Eg skal í þessu sambandi leyfa mér að geta þess, að prentvilla hefir slæðst inn í brtill. nefndarinnar við 3. grein. Það sendur þar matsmenn: á að vera matsmann.

3. brtill., sem nefndin leggur til, að gerð sé á frumvarpinu, er sú, að matsmaður hafi ekki vald til að skipa útgerðarmönnum og skipstjórum fyrir um útbúning á skipum, en að eins hafi vald til að leggja ráð á um þau efni, enda eiga þeir sjálfir alt á hættunni, ef illa fer; því þótti ekki ástæða til að setja svo hörð ákvæði inn í frumvarpið.

Eg leyfi mér svo að síðustu að mæla hið bezta með frumvarpinu. Eg er sjálfur sannfærður um, að hér er að ræða um stuðning á mikilvægri atvinnugrein, er landsjóður hefir haft miklar tekjur af, en hann missir þær, ef ekki eru fundin ráð til að koma honum aftur á góðan rekspöl og í tryggilegra horf en hingað til hefir verið gert.