21.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í B-deild Alþingistíðinda. (351)

20. mál, skoðun á síld

Ráðherra (Kristján Jónsson):

Það var að eins eitt atriði, er eg vildi benda á. Það var upphaflega ætlast til, að lögin öðlist gildi 1. Júlí, en nú er svo til ætlast, að þau öðlist gildi þegar í stað. En þessi ákvæði eru alveg ótæk. Eg skil ekki, að hægt verði að gera þær ráðstafanir, er gera þarf, samkvæmt ákvæðum laganna, svo fljótt, t. d. skipa yfirmatsmenn, gefa út erindisbréf handa þeim o. s. frv. Eg tel því ekki rétt að láta lögin ganga í gildi þegar í stað, þ. e. við staðfestingu þeirra; á hinn bóginn mætti framlengja tíma þann, er þau eiga að vera í gildi, og láta þau gilda lengur fram eftir, að mínu áliti væri rétt, að þau gengu ekki í gildi fyrr en síðla sumars 1911, af því að eg býst sem sagt ekki við, að hægt verði að koma ákvæðum þeirra í framkvæmd fyr. Eg vona, að nefndin taki þetta til athugunar.