05.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í B-deild Alþingistíðinda. (357)

122. mál, frestun aðflutningsbanns

Framsögum. (Sigurður Stefánsson):

Að því gengu allir menn vísu, að áfengisbannið hefði í för með sér stórkostlegan tekjumissi fyrir landssjóð. Áfengistollurinn hefir um langan aldur verið ein af aðaltekjugreinum landssjóðs oftast frá 3—400 þús. á fjárhagstímabilinu. En á hinn bóginn mátti telja það vandkvæðalítið að afla landinu tekna upp í þetta skarð og afla þeirra svo fljótt, að engin vandræði þyrftu að stafa af áfengisbanninu fyrir fjárhag landsins. Þetta var því hægra, sem alllangur tími var til stefnu frá samþykt laganna og þar til þau gengu í gildi. Hér var um eina hina sjálfsögðustu skyldu landsstjórnarinnar að ræða og það því fremur, sem landið þarfnaðist mikils tekjuauka þótt áfengistollurinn héldist. Reynslan hafði þegar fyrir nokkru sýnt, að þjóðarbúskapurinn þarfnaðist mikils tekjuauka, ætti sjálfsögðum og eðlilegum kröfum þjóðarinnar til aukinnar andlegrar og verklegrar menningar að geta orðið fullnægt af fjárveitingarvaldinu nokkurnveginn viðunanlega.

Þingið 1907 sá þetta fullvel, þessvegna skipaði stjórnin eftir tillögum þess milliþinganefnd til þess að endurskoða skattalög landsins; samdi sú nefnd allmörg frumvörp, er miðuðu til að auka tekjur landsins. Sú nefnd gerði ekki ráð fyrir áfengisbanninu og taldi því áfengistollinn með í tekjum landsins, en samkvæmt frumvörpum hennar nam tekjuaukinn fullum 200 þús. krónum á ári og taldi hún þann tekjuauka hið minsta, er af yrði komist með.

Þingið 1909 sá þetta líka fullvel, því duldist ekki, að með áfengisbanninu yxi tekjuþörfin um full 300 þús. krónur á ári, svo að ekki mundi bráðlega veita af að auka tekjurnar um ½ miljón árlega. Landinu bráðlá því á mjög ríflegum tekjuauka. Landstjórnin hafði hér góð tromf á hendinni þar sem voru frumvörp skattanefndarinnar vandlega undirbúin og rökstudd, að vísu voru tillögur hennar um hækkun áfengistollsins sjálffallnar með áfengisbanninu, en tekjuaukinn samkvæmt hinum frumvörpum hennar nam þó töluvert á annað hundrað þús. krónum á ári.

Stjórnin, sem við völdum tók 1909, var einbeitt bannlagastjórn og fylgdi því máli fast fram, þótt ver hafi verið þakkað af sumum bannvinum en skyldi. Ekkert var því eðlilegra, en að hún legði alt kapp á að fylla þó ekki væri nema áfengistollsskarðið í tekjum landsins, það var heilög siðferðisskylda hennar, það var sjálfsögð stjórnarskylda hennar gagnvart landi og þjóð.

Þjóðin bjóst líka við því, meira að segja taldi það alveg víst, að fyrir þessu þingi lægju ítarlegar og ákveðnar tillögur frá stjórnarinnar hálfu um stórauknar tekjur, hún var reiðubúin að taka þau gjöld á sig svo fjárhag landsins væri ekki teflt í voða. Það er sjálfsagt skylduverk stjórnarinnar að finna jafnan ráð til þess að láta tekjur og gjöld landsins standast nokkurnvegin á, ekki með því að draga úr þjóðnauðsynlegum framkvæmdum og fyrirtækjum, sem þingið hefir með höndum, heldur með því að útvega í samvinnu við þingið tekjur til aukinna framkvæmda og þjóðþrifa á öllum svæðum þjóðlífsins. Annars hætt við kyrstöðu á framsóknarbrautinni, og kyrstaðan verður oftast nær sama sem afturför.

Þetta skylduverk má engin stjórn undir höfuð leggjast.

En hvernig hefir nú stjórnin, sem frá fór, gegnt þessari skyldu sinni? Hvernig eru fjárhorfurnar? Upp í áfengistollsskarðið hefir stjórnin komið með einar liðugar 30 þús. kr. á ári sem tekjuauka á næsta fjárhagstímabili. Það er alt og sumt. Eftir næstu áramót hverfur áfengistollurinn úr sögunni, árið 1912 er ekkert af stjórninni áætlað til uppbótar fyrir hann nema þessar 30 þús. krónur, þær eiga að bæta úr alt að 200 þús. kr. tekjumissi. Með að sumu leyti fráleitum áætlunum um útgjöldin, tókst stjórninni að vísu að jafna nokkum veginn tekjur og gjöld á fjárlagafrumvarpi sínu, en þingið verður að gera á því miklar breytingar, til þess að samkvæmt sé gildandi lögum, eins og nú horfir við vantar að líkindum alt að hálfri miljón króna til þess, að þingið geti skilist sómasamlega við fjárhag landsins að þessu sinni, engin tekjuaukalög eru samþykt, fá stór á ferðinni og óvíst um samþykt þeirra, langlíklegast, að þau, er nokkuð munar um, verði feld.

Hvar lendir þetta?

Um fjórðung aldar hefi eg lengstum setið á alþingi Íslendinga, en aldrei hefi eg búist við að fara í jafn döprum hug og með jafn þungum áhyggjum um hag þjóðarinnar minnar heim af þingi eins og þessa síðustu daga.

Vér eigum innan fárra daga að afgreiða fjárlögin fyrir næstu tvö ár, eg hefi litla von um, að þau verði afgreidd með minna en 3—400 þús. kr. tekjuhalla, og það þótt vér verðum að láta ýms nauðsynjafyrirtæki sitja á hakanum. Vér höfum mörg slík mál með höndum, sem eiga fylstu kröfu til aðstoðar þingsins, en oss vantar fé. Vér erum þegar orðnir stórskuldugir og skuldirnar vaxa óðum. Vér skuldum Dönum nú þegar 2½ miljón kr., af þeirri skuld er miljón reikningslán, sem Danir geta heimtað af oss hve nær sem þeim þóknast. Vér höfum tekist á hendur ábyrgðir fyrir lánum annara nær ¾ miljón, og í þinglok verða þær ábyrgðir að líkindum 2 miljónir króna. 400 þús. króna lántaka verður og fyrir höndum til hafnarinnar í Reykjavík.

Eg efast ekki um, að vér séum menn fyrir þessu, eg tel ólíklegt, að ábyrgðirnar verði oss til tjóns, en hitt fullyrði eg, að oss beri að gæta allrar varúðar í því að glata ekki von bráðar allri tiltrú og lánstrausti. Það getum vér átt á hættu, ef svona er haldið áfram ár frá ári.

Eg veit, að mér verður bent á viðlagasjóðinn af þeim, sem hvergi eru hræddir, jú, vér eigum þar um 1700 þús. krónur, en getum vér fljótlega gripið til hans þó oss liggi á? Síður en svo.

Fjárlögin segja að vísu, að tekjuhallann skuli greiða úr viðlagasjóði og fljótur verður hann að fara, ef þing eftir þing afgreiðir fjárlögin með svipuðum tekjuhalla og nú lítur út fyrir. En það er hægra að setja þetta greiðsluákvæði í fjárlögin en að framkvæma það í fljótu bragði eins og nú horfir við.

Viðlagasjóðurinn er fastur. Hann er rígbundinn í lánum hjá einstökum mönnum og stofnunum. Á yfirstandandi fjárhagstímabili ætlaði stjórnin að losa úr honum 200 þús. kr. með uppsögn á eldri lánum. En hvað fékk hún? Segi og skrifa einar 20 þús. kr. eða þar um bil. Skuldunautarnir gátu ekki borgað, og að ganga hart að þeim var hér um bil sama sem að gera þá gjaldþrota. En hér er meira blóð í kúnni. Um 220 þús. kr. hafa verið settar fastar í honum á þessu fjárhagstímabili í nýjum lánum, sem þingið hefir heimilað stjórninni að veita. Afleiðingin af því hefir orðið sú, að peningaforði landssjóðs er uppétinn og það svo vendilega, að mér er sagt, að stjórnin hafi um tíma í vetur verið komin í hann fullkrappann að geta staðið í skilum með lögboðnar greiðslur svo sem laun embættismanna o. fl. Getur manni ekki dottið í hug í þessu sambandi maður, sem að vísu á töluverðar eignir, en verður þó að fara til skiftaráðandans með gjaldþrotayfirlýsing, af því að eigurnar eru allar rígbundnar og ekki hægt að víkja þeim fyrir sig.

En sá búskapur!

Og þó hugsa löggjafarnir sig nú minna um tugi og jafnvel hundrað þúsunda kr. fjárveitingar en við gömlu mennirnir hér á árunum um nokkur hundruð krónur og samt blómgaðist hagur þjóðarinnar vonum fremur alveg skuldlaust frá þingsins hálfu.

Svona eru nú ástæður landssjóðsins.

En hvernig er svo ástatt með fjárhag einstaklinganna? Er fjárhagslegu sjálfstæði landsmanna yfirleitt betur borgið en áður. Eignir þeirra hafa sjálfsagt vaxið mikið í orði kveðnu síðustu 10—15 árin, en hvernig er lánstraustinu þeirra farið?

Óvarkárni, kæruleysi og léttúð í öllum

viðskiftum, jafnvel beinar fjárglæfrar hafa farið dagvaxandi síðustu árin, stórkostleg og ljót gjaldþrot tíðir viðburðir. Lánstrausti og áliti landsins erlendis stórspilt af ókærnum fésýslumönnum, sem tekið hafa fé til láns en ekki borgað, hið mesta óorð komið á Íslendinga í öðrum löndum fyrir vanskil og fjárpretti.

Bankarnir okkar standa svo að segja ráðþrota gagnvart vanskilum og örbirgð viðskiftamanna sinna. Þeir horfa með tortrygni á fjölda skuldunauta sinna og lánbeiðenda, sem fyrir nokkrum árum höfðu fult traust þeirra.

Og hversvegna?

Af því að allur þorri þeirra manna, að minsta kosti í kaupstöðunum og hinum stærri kauptúnum landsins, sem hafa eins og sagt er „í sig og á“ er annaðhvort hlaðinn skuldum eða ábyrgðum eða hvorttveggju, sem lítil líkindi eru til, að þeir fái undir risið.

Hin fáu iðnfyrirtæki í stærri stíl eru flest á heljarþröminni.

Þjóðin hefir misbrúkað lánstraustið og bankarnir ekki farið eins varlega og þurft hefði.

Því fer fjarri, að eg örvænti um fjárhag vorn, þótt alt annað sé en glæsilegur nú, vér erum á gelgjuskeiðinu á þjóðlífsferli vorum, eg hefi óbifanlega trú á gæðum landsins okkar og framförum þjóðarinnar, er hún nær meiri þroska, en skjótum þroska nær hún því að eins, að hún fari gætilega að ráði sínu og kollhlaupi sig sem sjaldnast á framfarabrautinni.

Peningar eru dýrmætur höfuðstóll í viðskiftalífinu, en lánstraustið er enn dýrmætara, sé þeim höfuðstól glatað er flestu glatað, nema vonarvölnum.

Sumir vilja lækna öll fjárhagsmein vor með stórum lántökum, lántökum í tugum miljóna jafnvel; skynsamleg lán til velhugsaðra og arðvænlegra fyrirtækja eru beinn gróðavegur, ef stjórnsemi og ráðdeild er með, eyðslulán aftur á móti þrotalýsing fyrir persónulegt og pólitískt sjálfstæði.

Lánabrautin að því leyti varhugaverð fyrir fátæka þjóð.

Eg sagði áðan, að vér skulduðum Dönum nú þegar hálfa þriðju miljón. Rétt er að geta þess, að fyrir hálfri annari miljón af þessari skuld höfum vér bankavaxtabréf veðdeildanna, sem skuld þessi getur smámsaman borgast með. En hvernig getur farið um þessi verðbréf, ef landið sökkvir sér í skuldir og ábyrgðir ár frá ári? Þau geta óðar en varir stórfallið í verði á peningamarkaðinum, og orðið lítilsvirði, verðmæti þeirra er því skilyrði bundið, að vér förum gætilega með lánstraustið okkar; og það verð eg að segja, að skuldasúpan við Dani, sívaxandi ár frá ári, er alt annað en vænleg til þess að auka oss þor og dug í sjálfstæðisbaráttu vorri. Stórskuldugur maður, sem ekki getur greitt skuld sína hve nær sem er, steitir ekki hnefann framan í lánardrottinn sinn, hann veit ofurvel, að það svar getur legið á hraðbergi: „Borgaðu mér skuldina þína, góðurinn minn, svo geturðu steitt hnefann“.

Oss ríður lífið á að reisa oss ekki hurðarás um öxl í fjármálum vorum, gætileg fjárlög, þar sem tekjur og gjöld eru áætluð við hæfi þjóðarinnar, eru traustasta undirstaðan undir góðum fjárhag og eðlilegri framþróun þjóðfélagsins. Alþingi Íslendinga glatar tign sinni, þeirri tign að vera lyftistöng allra sannra þjóðþrifa, ef athugaleysið, ókærnin og léttúðin í öllum fjármálum, sem of mjög hefir bólað á hin síðustu árin, nær fótfestu í þingsölunum.

Eg sagði áðan, að fjárhagshorfur vorar væru mér þungt áhyggjuefni, getur verið af því, að eg sé ístöðuminstur og skammsýnastur vor allra, er hér sitjum, um þetta mál.

Þetta næsta fjárhagstímabil er þó ekki það óttalegasta í mínum augum.

Vér, sem margir hverjir förum líklega í seinasta sinni heim af þingi, getum ef til vill með það bak við eyrað sagt eins og einn hinn dáðlausasti þjóðhöfðingi, Lúðvík 15. Frakkakonungur, sagði þegar alt var komið að því að kollsteypast í ríki hans: „Aprez nous le deluge“. „Eg verð dauður þegar ósköpin dynja yfir“. En getur nokkur þingmaður huggað sig við þá tilhugsun?

Verði sem sé ekkert gert á þessu þingi til að greiða fram úr yfirvofandi fjárhagsvandræðum, stendur sú stjórn, er semja á næsta fjárlagafrumvarp (1914—1915) næsta illa að vígi. Annaðhvort verður hún að skera niður mikinn hluta þeirra fjárveitinga í fjárlögunum, sem ganga eiga til atvinnubóta, samgangna á sjó og landi, mentamála o. s. frv., í stuttu máli setja slagbrand fyrir mest allar framkvæmdir þjóðinni til nytja, eða þá að leggja fjárlagafrumvarpið fyrir þingið með mörg hundruð þúsund króna tekjuhalla. Eg veit, að sumir setja vonir sínar um bót á þessu á aukaþingið, sem væntanlega kemur saman næsta ár, þá megi ráða fram úr vandræðunum með nýjum skattalögum. Eg hef ekki mikla trú á því. Eg vil ekki fresta því til morguns, sem eg get gert í dag. Tel mjög vafasamt, að sú stjórn, sem nú fer með völdin, undirbúi ný skattalög fyrir þann tíma, eða þó svo yrði, að aukaþinginu, sem á setu einn mánaðartíma, vinnist tími til þeirrar lagasetningar, það hefir alt öðrum störfum að gegna, þar sem eru mál þau, er standa í beinu sambandi við stjórnarskrárbreytinguna, þau mál eru beint hlutverk þess, auk stjórnarskrárinnar og önnur ekki.

Eg skýt því til yðar, heiðruðu fulltrúar þjóðarinnar, sem þessi orð mín heyra, hvort þér getið rólegir farið héðan með þessari tilhugsun og hafa ekkert afrekað til að koma í veg fyrir þetta, eins og nú lítur út fyrir að verði.

Eg get það ekki, mér er það ómögulegt. Það dugar ekki þegar svona er komið að afsaka sig með aðgerðaleysi stjórnarinnar. Það dugar ekki, að þingflokkarnir kítist á um þetta mál og kenni svo hver öðrum um, að ekkert er gert. Skylda vor allra heimtar það, þjóðin heimtar það, að vér grípum til þeirra bjargráða, þótt enda séu örþrifaráð, sem til eru, í fullri einlægni og góðri samvinnu, hvað sem allri svo nefndri flokkaskifting líður. Og hversvegna? Af því hér þarf skjótra úrræða við til að firra ættjörð vora stórvandræðum. Þó eg ætti sárbeitta pólitíska fjandmenn hér á þingi, er eg sem betur fer ekki á, tæki eg glaður höndum saman við þá um slík bjargráð.

Eg skal játa, að eg sé ekki mikil ráð til að greiða úr þessu máli, svo sem þyrfti, en þó er þetta litla frumvarp dálítið ráð í þá átt. Eg hefði óskað, að þessu þingi hefði auðnast að finna miklu betri ráð, miklu vænlegri ráð til stóraukinna tekna fyrir landið á næstu árum, en eg hefi því miður litla von um það. Einn vill þetta og annar hitt, af því að grundvöllinn vantar til að byggja á og svo verður ekki neitt úr neinu.

Svo er um frumvarp þetta, að eg get búist við, að sagt verði, að eg með flutningi þess sé að svíkja fósturjörðina eða að minsta kosti að brugga bannlögunum banaráð, hótunarbréfið, sem liggur hér á borðinu fyrir framan mig, sannar þetta hugboð mitt, en eg get sagt þeim góðu mönnum, er sent hafa hingað þann samsetning, að eg fer mínu fram, hvað sem slíkum hótunum líður.

Eins og kunnugt er, voru á síðasta þingi samþykt lög, sem hér er farið fram á að fresta að nokkru leyti. Þau komust á fyrir ötula baráttu Goodtemplarareglunnar hér á landi, og meiri hluti kjósenda landsins veittu aðflutningsbanninu fylgi sitt 1908. Á þinginu mættu þau allharðri mótspyrnu og skal hér ekki frekar út í það farið, en svo fór þó um samþykt þeirra að lokum, að hún varð ekki með þeim hætti, er einlægustu bannmennirnir höfðu helzt ákosið. Framkvæmd þeirra var tvískift, aðflutningsbannið á að komast á við næstu áramót, en sölubannið ekki fyr en 1915. Áfengisverzlunin helzt því eftir sem áður til þess tíma. Eg var þessari tvískifting mótfallinn, þótt eg gengi að henni til að bjarga málinu frá falli. Mér duldist það ekki, að takmarkinu, sem stefnt var að, var ekki náð, fyr en sölubannið komst á eða 6 árum eftir samþykt laganna. Verði örðugt að gæta þess, að lögum þessum verði hlýtt, þegar þau eru algerlega komin í gildi, þá er eftirlitið þó mun örðugra á þessu tímabili milli aðflutnings- og sölubannsins. Vínsalan er heimil, vínnautnin því álíka almenn og áður, en allörðugt að vita hvort áfengið, sem keypt er og drukkið, er innflutt fyrir eða eftir 1. jan. 1912. Árangur laganna getur ekki farið að koma í ljós fyr en eftir 1915.

Áfengistollurinn síðastliðið ár var 182 þús. kr. eða nær 100 þús. krónum minni en hann er áætlaður í núgildandi fjárlögum, en þessi mikla lækkun getur stafað af því, að alþingi 1909 hækkaði áfengistollinn að miklum mun, en áður en sú hækkun komst í lög höfðu sumir stærstu áfengissalar landsins birgt sig upp meira en vanalega, til að komast hjá hækkuninni, svo aðflutningurinn árið sem leið hlaut að verða minni, svo getur og tollhækkunin hafa nokkru valdið um þessa lækkun; minna keypt, að minsta kosti svona fyrst í stað.

Verði nokkuð úr þessari frestun, má búast við, að tollurinn verði á næstu árum eitthvað svipaður og árið sem leið, og heldur hærri síðasta árið áður en bannið skellur algerlega á. Ekki ólíkleg áætlun, að hann muni að meðaltali verða alt að 200 þús. krónum á ári þessi þrjú ár frá 1912—1915, eða alt að 600 þús. kr. öll árin. Fjárlaganefnd neðri deildar áætlar tollinn 300 þús. kr. í ár; þegar sú upphæð er dregin frá hinni áætluðu upphæð minni, ætti tekjuaukinn af frestuninni að verða alt að 300 þús. krónum. Í hótunarbréfinu stendur að vísu, að enginn tekjuauki verði af þessu frumvarpi; eg gæti búist við slíkum fullyrðingum frá barnaskóladrengjum, en ekki frá sjálfri Stórstúkunni eða reyndum og greindum mönnum. Ef tekjuaukinn yrði lítill sem enginn, öll þessi ár fram yfir áætlun fjárlaganefndarinnar, þá væri drykkjuskapurinn orðinn minni en svo í landinu, að mikil þörf væri á bannlögunum.

Þegar nú þess er gætt, að framkvæmd þessara laga verður hvorki heil né hálf fyr en 1915 og landið því eftir sem áður fult af áfengi þennan tíma, en landssjóði græðast hinsvegar all-verulegar tekjur með þessu frumvarpi, verði það að lögum, þá virðast engin ósköp og skelfing vera á ferðinni. Með þessum tekjuauka vil eg firra landið stórum vandræðum og eg trúi því ekki fyr en eg tek á því, að allur þorri góðra manna, sem ekki er blindur á báðum augum af bindindis- eða bannofstæki, geti ekki látið sér það allvel lynda. Að vísu hafa liðugir 30 af 60 þingmálafundum á undan þessu þingi viljað halda fast við ákvæði bannlaganna, en þess ber að gæta, að þessir fundir töldu víst, að stjórnin mundi leggja fyrir þingið skattalagafrumvörp, er fylti upp í áfengistollsskarðið.

Sjálfstæðisflokkurinn á engan hlut að flutningi þessa frumvarps, þar er engum til að dreifa nema mér, og því tek eg á mig alla ábyrgðina af flutningi þess inn í þingið. Bannmálið hefir aldrei flokksmál verið og eg undanskil Heimastjórnarflokkinn einnig frá allri samvinnu við mig í þessu efni.

Ærslin og ólætin út af þessu litla frumvarpi æra mig ekki; eg tel mig vinna

Sjálfstæðisflokknum þarft verk, ef með þessu tekst að útvega landssjóði all-verulegan tekjuauka. Þegar þessi flokkur komst til valdanna taldi hann það eitt af hlutverkum sínum að sjá landinu betur

farborða í fjármálum, en honum þótti Heimastjórnarflokkurinn gert hafa. Sem sjálfstæðisflokksmaður taldi eg mér því skylt að fara ekki svo heim af þessu þingi, að eg ekki legði fram mína litlu þingmannskrafta til að ráða eitthvað fram úr því óefni, sem hér er í komið. Þjóðin verður að dæma um það, hvernig þetta ráð mitt er og hvort þess var ekki full þörf. Má vera, að eg haldi hér pólitíska líkræðu yfir sjálfum mér. Eg er þess albúinn að hverfa héðan, dvöl mín hér fer ef til vill að verða hvorki sjálfum mér né þjóðinni minni að skapi, og þá er bezt að fara, en þá hjartans sannfæring mína vildi eg geta greipt á hjartarætur þjóðarinnar, hrópað hana inn í hug og hjarta hvers einasta Íslendings, að eitt dýrasta og eftirsóknarverðasta hnossið á þjóðlífsbrautinni er efnaleg sjálfstæði, án hennar er alt sjálfstæðisskraf hljómandi málmur og hvellandi bjalla, með henni getur hún orðið sannarlega frjáls þjóð.