05.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í B-deild Alþingistíðinda. (364)

122. mál, frestun aðflutningsbanns

Ráðherra (Kr. J.):

Eg neyðist til að biðja um orðið, til þess að gefa stutta yfirlýsingu. Hv. þm. Ak. mintist að ástæðulausu á mál, sem eru þessu gjörsamlega óviðkomandi. Hann lagði mér í munn orð, sem eg aldrei hefi sagt, rangfærði orð mín sýnilega vísvitandi! Eg hefi tvívegis tekið það fram í Nd., að eg efaðist ekki um, að lán það, sem fráfarin stjórn tók í Danmörku, væri í beztu reglu. Eg vísa því orðum hans algerlega á bug. Hinsvegar skal eg bæta því við, að fyrst í dag hefir það tekist, að gera þetta lán alveg upp. Fullkomna greinargerð fyrir því fékk eg ekki fyr en fyrir klukkutíma. Þetta er ástæðan til að svo mikið hefir verið um lánið talað. Því að það er algerlega óskiljanlegt, að það skuli hafa kostað þrjár vikur að gera þetta litla lán upp. Og eg skal taka það fram, að það er gert án aðstoðar þeirra, sem áttu með það að fara. Eg skal geta þess, að það lítur út fyrir, eftir skýrslu þeirri, sem gjörð hefir verið um lánið, að jarðabótasjóður skuldi af lánsfénu (?: láns-conto) yfir 100,000 kr. Þetta er fé, sem notað hefir verið í þarfir landsins, en landssjóður ekki endurborgað vegna peningaleysis. 70 þús. krónur hafa farið í vexti og afborganir, sem fyrst nýlega hafa komið skýrslur um. Þetta gerði erfitt að greiða úr reikningunum yfir lánið.

Menn hafa lengi verið að grenslast eftir, hvar þessar tæpu 200 þús. krónur væru niðurkomnar, en nú er það komið á daginn. Mikið af þessu fé hefir gengið í gegnum Íslandsbanka, og hafa fullkomnar upplýsingar fengist hjá honum um alt það efni. — Viðvíkjandi því máli, sem hér liggur fyrir, skal eg aðeins minnast á eitt eða tvö atriði. Því hefir verið skotið fram, að hér á þinginu sé á leiðinni lagafrumvarp um tekjuauka fyrir landsjóð, nefnilega farmgjaldsfrumvarpið. Eg hefi lesið það frumvarp og athugað það, og lýsi yfir því, að eg tel það óaðgengilegt með öllu. Það er ekki hægt að hafa neina hugmynd um, hve miklar tekjur slíkt farmgjald myndi gefa landinu, en á hinn bóginn yrði kostnaður við eftirlit afarmikill. Þá hafa menn og talað um, að leggja hærra gjald á hvalafurðir, til þess að auka tekjur landssjóðs. Þetta gjald hefir tvívegis verið á lagt og hækkað, og er nú orðið ærið hátt, svo að mikil spurning er um, hvort tiltök eru að hækka það. Auk þess veit eg ekki betur en að einn aðal-hvalveiðamaðurinn hér við land, Ellefsen, hafi í hyggju að flytja sig af landi burt. Þessi atvinnuvegur er því á þeim fæti nú, að þingið getur ekki búist við stórum tekjum af honum. Þá hefir verið stungið upp á því, að selja megi eign landssjóðs, bankavaxtabréf, til þess að bæta tekjuhallann. Eg hefi aldrei álitið það rétt, að fylla tekjuskarð, með því að selja eign. Það er aðeins bót í bili, en getur ekki komið í staðinn fyrir aðrar tekjulindir á fjárlögunum. Það að taka af almenna skatta, og selja eign landsjóðs í skarðið held eg megi kallast að brenna kertið frá báðum endum; það er að kasta tekjum, og jafnframt eyða eign. Sama er um það að segja, að taka lán til að jafna tekjuhallann. Lán eiga menn ekki að taka, nema til arðvænlegra fyrirtækja, eins og t. d. hefir verið talað um að taka lán til hafnargerðar hér í Reykjavík, því að höfn hér mundi borga sig, sumpart beinlínis, sumpart óbeinlínis. Að selja eign landsjóðs og taka lán til þess að fylla upp í tekjuskarð, er fullkomlega „óökonomiskt“, kemur í bága við allar hagfræðireglur og þjóðmegunarlög. Eg stóð aðeins upp til að gera þessar athugasemdir, en um málið í heild sinni ætla eg ekki að tala nú við þessa umræðu.