05.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í B-deild Alþingistíðinda. (366)

122. mál, frestun aðflutningsbanns

Steingrímur Jónsson:

Eg tek til máls af því mér finst það viðeigandi, að einhver þeirra manna, sem voru andstæðir bannlögunum 1909, láti í ljós álit sitt á þessu máli við þessa umræðu. Mér kom frumvarpið á óvart, og það fyrsta, sem mér datt í hug, er eg sá það, var, að þarna hefði eg hitt sjálfstæðismann, sem eg gæti verið fullkomlega þektur fyrir að taka ofan fyrir. — Hann er bannlagamaður og er þetta því sómastryk af honum. Hann sýndi, að hann leit stórt á kringumstæðurnar, sem liggja fyrir, hann sýndi það, að hann finnur til þess, að hann á að bera ábyrgð á atkvæði sínu frá síðasta þingi. Með þessu viðurkennir hann líka, að bannmenn hefðu átt að vera búnir að gera einhverjar fjárhagslegar ráðstafanir til að fylla tekjuskarðið, áður en lögin gengi í gildi. Það er kunnugt, að fráfarin stjórn, sem var bannstjórn, gerði ekkert í þessu efni, og hvílir þá skyldan til að bæta úr þessu á þeim sem komu lögunum í gegn. Eg tel virðingarvert af flutningsmanni að leggja til að gera það á þennan hátt sem er sú eina aðgengilega leið.

Auðvitað máttu bannlögin ekki koma í gildi, mátti ekki kippa þessum tekjustofni, vínfangatollinum, í burt fyr en annar tekjustofn var fundinn í staðinn. Það var því sjálfsagt, að slík tillaga kæmi frá þeim mönnum, sem bera ábyrgð á fjárhag landsins að þessu leyti. Háttv. flutningsmaður lýsti nokkuð fjárhag landsins eins og honum virtist hann vera. Eg get ekki álitið, að útlitið sé alveg eins slæmt og hann lýsti því. En hitt er satt, að vér erum nú komnir inn á braut, sem er hættuleg, ef ekki er farið varlega á henni. Vér höfum í seinni tíð neyðst til að tefla á það ítrasta með útgjöldin, en tekjurnar hafa fremur þorrið heldur en vaxið. En svo er annað, og það er það, að á síðustu þingum hefir verið farið of langt í því að binda fé viðlagasjóðs, gera hann óhandbæran, með því að veita lán úr honum, svo að ekki verður gripið til hans, þegar á þarf að halda.

Eg verð að skoða það sem hreint og beint neyðarúrræði, ef synja þarf um stuðning helztu framfara fyrirtækjum, sem varða mjög miklu fyrir heill almennings. Eg get bætt því við það, sem eg sagði áðan, að frá mínu sjónarmiði, sem andbannings, er frumvarp þetta svo eðlilegt, að eg þegar í þingbyrjun áleit óumflýjanlegt, að það hlyti að koma fram fyr en síðar.

Háttv. þm. Akureyrar gat þess, að hann hefði búist við þannig löguðu frumvarpi úr annari átt — eftir því sem mér skildist frá oss andbanningum — og þóttist hann hafa haft sérstaka ástæðu til þess, vegna hins mikla gauragangs, sem vér hefðum gert út af aðflutningsbannslögunum. Eg neita því gersamlega, að nokkur gauragangur hafi verið gerður frá vorri hálfu í máli þessu; háttv. þm. Akureyrar getur ekki með góðu móti kallað það gauragang, þótt andbanningar yrðu að stofna málgagn sér til stuðnings, þar sem flest hin blöðin vildu ekki flytja eina einustu línu um málið; vildu fyrirbyggja að almenningi gæfist kostur á að skoða það, nema frá annari hliðinni.

En þar sem hv. sami þm. var að tala um það, sem fyrir okkur vekti — andbanningum — að fá lögunum frestað, þá sló hann þar hreint og beint vindhögg; við viljum engan veginn frestun laganna, heldur algert afnám, að þau séu með öðrum orðum numin úr gildi, sem skaðleg lög fyrir þjóðfélagið; það er þetta, sem vér andbanningar viljum; það og ekkert annað. En væri hér að eins um frestun að ræða, mundum við heldur kjósa, að lögin kæmu í framkvæmd á sínum rétta í tíma, til þess að þau gætu sem allra fyrst sjálf sannfært menn um, hvað ómöguleg þau eru.

En það er vegna fjárhagsins, að við í eigum hiklaust að samþykkja þetta frumv. Eg tel vafalaust, að hreinn tekjuauki af því muni verða um 400,000 kr. Þetta þykir sumum kannske ekki mikið fé; en hjálpað getur það nokkuð; jafnvel þó maður gæti sagt, að maður gjarnan vildi meira.

Þá er það annað atriði í ræðu hv. þm. Akureyrar, sem eg vildi harðlega mótmæla; hann sagði sem sé, að sjálfstæðisþingmenn hefðu viljað koma í veg fyrir bruðlunarsemi þá í fjármálum, sem reynt hefði verið að smeygja inn á þinginu 1909, og verið hefði föst regla undanfarinna þinga.

Þetta er einungis fyrirsláttur; mér er kunnugt um, að sjálfstæðisþingmenn háttv. efri deildar reyndu ekki einu sinni að spara, þeir skáru bara niður þarfar og óumflýjanlegar fjárveitingar; en eyddu svo aftur á móti stórfé í bitlinga og bruðl.

Þá tók hv. sami þm. það fram, að lántakan síðasta — hálf önnur miljónin sú — hefði enga þýðingu fyrir hag landssjóðsins. Það er að segja íþyngdi honum ekki neitt. Þetta er sumpart rétt, vegna þess að fyrir peningana voru keypt verðbréf. — En ef bréfin féllu nú t. d. í verði, ætli þá gæti reynt nokkuð á þolrif landssjóðsins? Trúað gæti eg því.

Það mætti í þessu sambandi minna á orð hæstv. ráðherra, þar sem hann gat þess, að komið hefði til mála að selja bréfin töluvert undir nafnverði.

Þá vildi eg leyfa mér að gera stutta athugasemd við ræðu hv. sessunauts míns, þm. Vestur-Ísfirðinga. Hann kvaðst ekki vilja gera mikið úr fjárhallanum; sagði meira að segja eftir því, sem mér skildist, að fráfarandi stjórn hefði skilað fjárlögunum í góðu lagi; en það er þá bara á pappírnum. Eg vil leyfa mér að benda á, að það eru líka til fjáraukalög fyrir 1910 —11, með engum smáræðishalla — það get eg ekki séð, að sé nokkru betra, en að hallinn hefði staðið hreint og beint á fjárlögunum sjálfum. Og eg verð að segja, að mér þykir fráfarandi stjórn hafa verið altof djörf í áætlunum sínum um vín í tollgeymslu — 360 þús. kr. — eða nákvæmlega helmingi hærra en vínfangatollurinn sjálfur var síðastliðið ár.

Eg skal svo ekki tala fleira að sinni um mál þetta; mér þykir vænt um að frumvarpið kom fram, og mun með atkvæði mínu styðja að framgangi þess hér í hinni háttvirtu deild.