05.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í B-deild Alþingistíðinda. (367)

122. mál, frestun aðflutningsbanns

Jósef Björnsson:

Það er að eins örlítið, sem eg ætla að segja; að eins gera stuttar athugasemdir við það, sem háttv. flutningsm. þessa máls sagði í síðustu ræðu sinni.

Háttv. flutningsm. sagði, að sér hefði þótt kenna nokkurrar mótsagnar hjá mér í orðum þeim, er eg talaði áðan. Eg kannast að vísu ekki við að svo hafi verið. En mér finst alls ekki undarlegt, þótt svo kynni að hafa verið, og það álit hans hefði verið á rökum bygt, þegar jafn skýr, reyndur og greindur maður, sem eg veit að hv. flutningsm. er, ekki er laus við mótsögn.

Eg er nýgræðingur í þingstörfum, en hann, hv. flutningsm., hefir setið á alþingi um aldarfjórðung að því er hann sjálfur skýrði frá; en þó verð eg að geta þess, að hann, sem að sjálfsögðu stendur mér svo langtum framar í allri þingmennsku, hefir að minni hyggju gert sig marg-sekan í mótsögnum í máli þessu.

Mér finst framsöguræða hans ekki vera í samræmi við fyrirsögn frumvarpsins, né frumvarpið sjálft. Framsaga málsins og frumvarpið sé eg ekki betur en sé í mótsögn hvað við annað. Eg fæ ekki betur séð, en með frumv. sé ætlast til, að öllum ákvæðum laganna sé frestað, þeim, sem bundin eru við ár og dag, en í flutningsræðunni sagði hv. þm., að einungis væri ætlast til, að innflutnings-bannákvæðinu væri frestað. En mér er spurn: Hvernig getur t. d. ákvæðinu um, að sölubann gangi í gildi 1. jan. 1915 verið ófrestað, þegar öllum lögunum er frestað í þrjú ár, eins og orð frumv. og fyrirsögn hljóðar um? Nei, sölubanninu er ekki ófrestað, heldur frestað til 1918 samkv. frumv. og því er hér mótsögn í framsögunni, miðað við frumvarpið. Þá vil eg leyfa mér að geta þess, að háttv. flutningsmaður þessa máls var með í því að samþykkja bannlögin á síðasta þingi og tjáir sig enn þá eindreginn fylgismann málsins. Það verður mér þess vegna því óskiljanlegra, að nú skuli hann vera flutningsmaður að þessu frumvarpi, er hér liggur fyrir hinni háttv. deild.

Það er mínum skilningi alveg um megn að botna í því, að maður, sem vill hafa bannlög og telur vínnautn skaðlega fyrir þjóðfélagið, skuli þó jafnframt vilja hefta framkvæmd slíkra laga, — að sá maður skuli vera til, sem segir í einu orðinu, að vínið sé skaðlegt og sé sannkallað þjóðarböl en í hinu orðinu, að við skulum þó halda því sem lengst, eða lengur en við þurfum. — En fram á þetta fer frumvarpið. Er þetta ekki ósamræmi? Þá gaf hv. flutningsm. það í skyn, að tekjurnar af innflutningi áfengis til 1. jan. 1915 yrðu svo miklar, að við gætum illa án þeirra verið eins og fjárhagurinn nú stæði, þótt hann einnig segði, að ekki mundi verða meira drukkið í landinu, þótt frestað væri innflutningsbanninu. Þetta fæ eg ekki skilið. Annað tveggja hlýtur að verða, að meira verði innflutt og meira drukkið, eða þá, ef þetta verður ekki, að fjárhagslegur hagur fyrir landsjóð verði enginn af frestuninni, af því að aukinn tollur fæst með því móti einu, að meira verði innflutt af vínföngum. Hér virðist því enn ósamræmi hjá flutningsmanni.

Eg lít nú svo á, að ágóðinn af frestun bannlaganna muni ekki verða svo ýkjamikill. Auðvitað veltur hann nokkuð á því, hversu mikið drukkið er. En mín skoðun er sú, að því meira sem drukkið er, þess stærra og víðtækara tjón hljótist af því fyrir þjóðina; og það er þetta tjón, sem eg vil koma í veg fyrir, því þótt á móti kæmi nokkrar tekjur í landssjóð, tel eg það minna vert, — þessvegna er eg á á móti allri frestun bannlaganna, í hvaða mynd sem er. Og þótt eg geti verið hv. flutningsm. sammála um það, að þjóðin, áður en við fórum til þings, hafi máske búist við því, að alt yrði vel í garðinn búið frá hendi stjórnarinnar, sem að þessu máli lyti, svo að trygður væri nægilegur tekjustofn, í stað vínfangatollsins, og þótt sú hafi orðið raunin á, að undirbúningurinn þessu viðvíkjandi hafi ekki orðið sem skyldi, og sem eg játa, að átt hefði að vera mun betri, þá lít eg samt svo á, að engin frestun þurfi að eiga sér stað. Eg hefi enga sönnun fengið fyrir því, að ekki séu margir vegir aðrir færir til þess að vinna upp tekjumissinn; eg er engan veginn sannfærður um, að t. d. farmgjaldsstefnan sé óaðgengileg, og þótt þinginu virtist, að hún hefði of stóra galla til þess að hægt væri að halla sér að henni, þá mætti taka upp faktúrutoll í bráðina til þess að fylla þetta skarð, sem svo mörgum virðist nú vaxa í augum. Einnig hygg eg, að til séu fleiri vel færir vegir, til þess að ná inn þessu fé.

Eg ætla að enda þessi orð mín með því að minnast stuttlega á dálítið atriði í ræðu hv. 4. konungkj. þm. Hann sagði, að það fyrsta, sem sér hefði dottið í hug, er hann sá frumvarp þetta hér í deildinni og veitti eftirtekt hver flutningsmaðurinn var, að þarna hefði hann þá fyrst hitt sjálfstæðismann, sem hann gæti tekið ofan fyrir. —

Mikið má nú þetta mál vera mikils virði í augum hv. 4. kgk., þegar hann nú í fyrsta sinn gat tekið ofan fyrir þessum manni í sjálfstæðisflokknum, bara af því hann vill fresta bannlögunum.

Mikið dálæti hlýtur þingm. að hafa á víninu og miklu ástfóstri að hafa tekið við það, fyrst það eitt er nóg til þess að hann sýni einhverjum þá virðingu að taka ofan fyrir honum, að sá hinn sami vill halda áfengi í landinu, þótt hann annars ekki gæti fengið sig til þess að taka ofan fyrir honum.

Og þegar háttv. þingmaður gaf í skyn, að þetta atvik hefði fyrst gert sér fært að taka ofan fyrir nokkrum sjálfstæðismanni, þá skildist mér svo, sem hann áliti þá menn, sem þann flokk hafa fylt og fylla, standa alllangt fyrir neðan sig.

Eg gat því ekki að því gert, að einmitt út af þessum ummælum hans flugu mér í hug þessi alkunnu orð: „Miklir menn erum við Hrólfur minn.“ —