18.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

122. mál, frestun aðflutningsbanns

Jósef Björnsson:

Það var tekið fram hér í þessari hv. deild, við 1. umr. málsins, að frumvarpið væri flutt eingöngu í þeim tilgangi, að afla landssjóði meiri tekna, og hið sama má sjá af nefndarálitinu, og mér dettur ekki í hug að efa, að þessi hafi verið tilgangurinn. En eg verð aftur á móti að draga í efa, að í framkvæmdinni verði þessi leið til nokkurs verulegs tekjuauka á fjárhagstímabili því, er í hönd fer; heldur geti jafnvel af hlotist beinn skaði fyrir tekjur landssjóðsins.

Eg þykist fullviss um, að vínsölumennirnir flytji svo mikið inn af víni, að nægilegt verði til þess að fullnægja eftirspurninni. Eg býst jafnvel við, að tekjurnar yrðu frá 400—500 þúsund eða meira ef lögin stæðu óbreytt, og gæti því af frestuninni stafað beinn fjárhagslegur skaði fyrir næsta fjárhagstímabil. Eg get tekið undir með hv. 5. konungkj., að það sé að sumu leyti óheppilegt, að aðflutningsbann og sölubann komist á í einu; að því leyti sem það getur verið nokkur áhætta fyrir vínsölumennina að gera stór innkaup á vínföngum, með því að þeir af þeim orsökum gæti setið uppi með talsverðar, óseldar vínbyrgðir. En mín skoðun er sú, að því meira vín sem flutt er inn í landið, þess stærri skaða biði þjóðin við það, og að hver sá frestur, sem tefur algerða útrýmingu áfengisins sé hættulegur. Og frá mínu sjónarmiði og annara bannvina, eru þeir peningar, sem inn koma fyrir vín, sannkallaðir blóðpeningar. Eg skal ekki um það segja, hversu marga menn vínið beinlínis drepur, en áreiðanlegt er, að það stórspillir velferð fjölda margra manna. Og þótt sumir menn segi, að þeir mennirnir, sem verst fara af völdum víndrykkjunnar, séu aðeins hálfgerðir aumingjar eða ræflar, þá verð eg algerlega að mótmæla því. Hættan er engu minni fyrir mæta menn og ágæta. Mér hefir ekki reynst svo í lífi mínu að því leyti, sem eg hefi þózt geta veitt eftirtekt, að ofnautn víns hafi helzt meitt þá mennina, sem minst sé í spunnið, heldur einmitt þvert á móti. Og eg verð að líta svo á, að hvert mannslífið, hvert vel unnið æfistarf, sé svo dýrmætt, að ekki verði metið til peninga, og þá verður heldur ekki útrýming áfengisins metin réttilega til peninga, svo stór-mikilsverð er hún í eðli sínu.

En það er líka enginn vafi á því, að mjög óheppilegt er að fresta lögum, sem koma eiga til framkvæmdar á ákveðnum tíma. Það vekur jafnan óheppileg áhrif og getur veikt virðingu löggjafarvaldsins í augum þjóðarinnar. Þegar farið er og að fresta lögum, þá er hætt við að verði að fresta aftur og aftur. Þetta hefir komið í ljós um fræðslulögin. Þeim hefir að nokkru leyti verið frestað í eitt skifti og nú er enn fyrir háttv. neðri deild á ferðinni samskonar frestun. Þetta veldur réttaróvissu hjá þjóðinni, sem ástæðu hefir til að segja um gildandi lög: þau koma ef til vill aldrei í framkvæmd.

Hvað snertir br.till. frá hv. 5. kgk. þá verð eg að játa, að mér þykir hún betri en aðalfrumv. og af tvennu illu skal taka hið minna. Eg mun því greiða atkvæði með henni, þótt eg sé algerlega á móti máli þessu í heild sinni.