18.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í B-deild Alþingistíðinda. (374)

122. mál, frestun aðflutningsbanns

Sigurður Hjörleifsson:

Eg hefði ekki þurft að taka til máls ef hv. 5. kgk. hefði ekki hreytt að mér nokkrum hnútum. Hann leyfði sér, hv. 5. kgk., að hafa svo greinileg endaskifti á orðum mínum, að undrun sætir, og þar að auki eigna mér orð og ummæli, sem eg aldrei sagði. En hitt gerði eg að beina til hans nokkrum viðvörunarorðum í þessu máli og var það ekki ófyrirsynju. Annars vil eg vísa til hans öllum hnútum í minn garð, aftur um hæl; honum eru orðin slík hnútuköst svo töm, að manni liggur við að halda, að það sé engan veginn sjálfrátt.

Eg skal ekki segja neitt um það, hvað honum (5. kgk. þm.) gengur til í þessu máli, en eg vil að eins benda á það, hvað hann hefir sjálfur sagt í seinustu ræðu sinni. Hann segir, að það hafi verið glapræði að lögleiða aðflutningsbann, nema vissa væri fengin fyrir því áður, hvaða skattar eða tollar eigi að koma í staðinn fyrir vínfangatollinn. Ef þetta er glapræði, þá hefir það líka verið hans verk að vinna það glapræði á alþingi 1909 með atkvæði sínu. Eg segi ekki, að það hafi verið tilgangur hans að gera glapræði. Eg bendi að eins á, hvað hann hefir sjálfur sagt. Að því er snertir þá tillögu, að lögin skulu að öðru leyti vera óröskuð, þá er slíkt hreint og beint „humbug“. Að ákveða það með einföldum lögum, að þessum lögum megi ekki breyta, er ekki hægt.

Annars vil eg benda á það, að nú eru fyrir þinginu lög, sem eiga að bæta úr þeim tekjumissi, sem landssjóður verður fyrir, ef hann missir vínfangatollinn. Ef menn vilja samþykkja það frumvarp og þegar hér við bætast lög þau, smálög, sem stjórnin lagði fyrir þingið, til að útvega landssjóði tekjur, þá er óþarfi að gera meira í þessu efni nú, því að það verða engin vandræði á næsta fjárhagstímabili. Enn vil eg benda á það, að nú sem stendur er uppgangsár. Útflutningsgjaldið fer vaxandi, aðflutningsgjaldið vex, kaffi- og sykurtollur vex. Það verður ekki séð annað, en að nú horfi til blómaaldar hér á landi. Mér finst það ekki vera vert að þræta um það, hvort við getum verið án nokkurra tuga þúsunda kr. tekna af vínfangatollinum.

Það er einmitt mjög mikils vert, að bannlögin komist á nú, vegna þess, að fólk hefir nú meira handa á milli en áður og kjör manna að þessu leyti batna. Það er því áríðandi að beina högum manna í rétta átt, svo að þeir noti tekjurnar heppilega. Ef aðflutningsbannið kemst á, þá er hér um hálfrar miljón kr. sparnað að ræða. Það er ekki lítið fé og einhverju af því ætti að verða varið til aukinna framkvæmda í landinu. Auðvitað færi það ekki allt til aukinna framfara í landinu. Nokkuð af því mundi fara í eyðslu. En sú eyðsla mundi ekki vera eins hættuleg og víneyðslan. Háttv. 2. þm. Skagf. (J. Bj.) sagðist ekki vilja segja, að vínið hefði drepið marga menn hér á landi. En honum hefði með öllu verið óhætt að fullyrða það. Það er óhætt að segja, að það drepur fjölda manns á hverju ári. Nú á fáum mánuðum hafa 4 menn lagt af stað frá einu kauptúni hér á landi — og eftir fáar klukkustundir vóru þeir allir liðin lík. Almenningsálitið er það, að ef vínið hefði ekki verið annars vegar, væri þeir allir lifandi nú.

Eg skal svo ekki segja meira að þessu sinni.