18.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

122. mál, frestun aðflutningsbanns

Gunnar Ólafsson:

Eg skal ekki tala langt mál nú, enda er það að bera í bakkafullan lækinn.

Eg efa ekki, að háttv. flutningsm. hafi komið fram með þetta frumvarp í því skyni að bæta fjárhag landsins, að tryggja það, að „kassinn“ verði ekki tómur, eins og hann kemst að orði. Hann sagði sjálfur, að aðaltilgangurinn væri sá. En þegar litið er á það, hvernig fjárhagsástandið er í raun og veru og þegar enn fremur er litið á þær leiðir, sem eru til þess að bæta úr því, þá ætti ekki að þurfa að grípa til þeirra „örþrifaráða“, sem hér er farið fram á. Fjárhagshorfur okkar eru ekki þannig lagaðar, að rétt sé að grípa til þess, sem að réttu lagi má kalla örþrifaráð. Eg lít svo á, að ef breyting sú, sem hér er farið fram á, verður að lögum, verði það til þess, að lögin komist aldrei í framkvæmd. Það sé fyrsta sporið til að upphefja lögin.

Nú sem stendur er tekjuhallinn áætlaður kr. 281,000,00

Og það má búast við, að áður en lýkur verði

bætt við kr. 100,000,00

Þetta eru alls kr. 381,000,00

Það hefir verið tekið fram, að hann geti orðið meiri

(Sigurður Stefánsson: Fjáraukalögin)

og hann getur ef til vill, alls og alls orðið eitthvað á 4. hundr. þúsund kr. En það er nú viðurkent, að eftir þeim lögum, sem þegar eru samþykt af þinginu, aukist tekjurnar um

……………………………………………………… kr. 65,000,00

og ef farmgjaldsfrumvarpið nær fram að ganga, gefur

það um……………………………………………… kr.180,000,00

Þetta verður alls…………………………... kr. 245,000,00

Eftir því, verður tekjuhallinn, ef gert er ráð fyrir þeim tekjuhalla, sem nú er, 136 þús. kr. Vitanlega er þetta allmikið og ekki furða, þótt það þyki ísjárvert. En nú hafa tekjurnar orðið það miklar síðastliðið ár, að þær borga vel þenna áætlaða tekjuhalla, á yfirstandandi fjárhagstímabili 1909 varð tekjuhallinn 64 þús.

Nú árar vel og teknaafgangur getur orðið um 160 þúsund kr. og það er ekki of í lagt. Verði það þá eru nægir peningar á reiðum höndum til að borga þennan væntanlega tekjuhalla. Þegar nú þetta er athugað, sýnist mér, að ekki standi neinn fjárhagslegur voði fyrir dyrum. Í undanfarandi fjárlögum hefir alt af verið áætlaður stór tekjuhalli. Oftast hefir það þó farið svo, að tekjurnar hafa hrokkið fyrir útgjöldunum. 1903 var mjög stór tekjuhalli áætlaður, um 450 þús. En hvernig voru menn sinnaðir þá? Eg hefi ekki heyrt talað um það, að menn hafi þá viljað grípa til nokkurra örþrifaráða. Þó að tekjuhallinn sé mikill, álít eg, að menn eigi ekki að vinna það til, að bæta úr honum, að ónýta þessi lög, sem eru til meiri hagsældar og gagns fyrir landið, en öll önnur lög, sem samþykt hafa verið á seinustu þingum. Eg veit vel, að mér verður svarað því, að hér sé að eins um frest að ræða. En í reyndinni verður það svo, að það verður að eins frestur, er notaður verður til að vinna gegn því, að bannlögin komist í framkvæmd, þótt það sé ekki tilgangur hins háttv. flutningsm.

Eg álít því, að frumvarp hins háttv. flutningsm. (S. St.) og eins brtill. háttv. 5. kgk. þm. (L. H. B.) sé hvorugt þess vert að það eigi að fara lifandi út úr deildinni og eg ætla mér að greiða atkvæði móti báðum. Eg sé ekki annað en að brtill. hins háttv. 5. kk. sé að eins oddmjórri fleygur til að kljúfa bannlögin. Eg skal játa, að hún lítur betur út, ef fljótt er á litið. Það er ekki nema eitt ár, sem þar er um að ræða. En annars álít eg hana eins ísjárverða. Eg hefi ekki heldur heyrt háttv. flutningsmann færa neinar gildar ástæður fyrir máli sínu. Þessi eins árs frestur bætir nauðalítið úr fjárhagsástandinu, og þar af leiðir það, að tillögumaður hefir, ef til vill, eitthvað annað fyrir augum en fjárhaginn, og mætti svo vera að hann leyndi því ekki til fulls við atkvæðagreiðsluna hér í dag. En falli tillaga hans, sem eg vona, og leyfi hann frumvarpinu framgang með atkvæði sínu, þá gægist það út, sem innar býr, og það er að koma frestuninni fram í einhverri mynd. Háttv. 5. kk. kallaði það glapræði að kasta, frá sér tekjunum af víninu eða víntollinum og ennfremur sagði hann, að hvernig sem færi um þjóðina og einstaklinga hennar, þá yrði landsjóður að lifa. Já þannig er nú hagfræði þessa manns og er því ekki úr vegi að minna hann á, að þótt nauðsynlegt sé og óhjákvæmilegt, að fá fé í landssjóð, þá er það skylda þingsins, um fram alt, að sjá svo fyrir eftir mætti, að þjóðinni í heild sinni og einstaklingum líði sem bezt og þá geta þeir líka greitt nauðsynleg gjöld í landsjóð. En styðji löggjafarvaldið að því, að þau efni, svo sem vínið, haldist í landinu, þá lamar það þjóðina andlega og líkamlega og við það rýrna allra mest tekjur landsjóðs. Þetta og þvílíkt ætli háttv. þm. að athuga, ásamt þeim er hans flokk fylla.