18.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í B-deild Alþingistíðinda. (379)

122. mál, frestun aðflutningsbanns

Sigurður Hjörleifsson:

Þegar háttv. þm. Ísafj.kaupst. var að telja vínsölumennina hér á landi, þá var því hvíslað að mér af manni, sem vel hefir athugað þetta, að þeir munu vera alls í landinu milli 20 og 30. Eg vil leyfa mér að benda honum á, þar sem hann hélt því fram, að vínkaupmennirnir mundu ekki þora að panta miklar vínbirgðir af því, að þeir kynnu að deyja, að ekkjan heldur réttinum til áfengisverzlunarinnar þótt þeir deyi og er fyrir þessu hæstaréttardómur. Að breyta tollgeymslulögunum, eins og farið er fram á í frumvarpi, sem fram er komið í neðri deild, er alt annað en frestun á bannlögunum. Eg skal játa, að það er nokkurt neyðarúrræði og ekki æskilegt að hlynna að innflutningi áfengis, en þó væri ekki frágangssök að gera þetta að samkomulagi, því það gæti haft mikla þýðingu fyrir aukning teknanna.

Viðvíkjandi því, sem hv. 5. kgk. þm. sagði, þá furða eg mig á, að hann skuli alt af vera að leggja mér orð í munn, sem eg aldrei hefi talað. Eg sagði ekki að hann hefði framið glapræði 1909. En eg sagði, að eftir því sem hann sjálfur lýsti því, þá hefði hann átt að fremja glapræði, því hann taldi það glapræði að samþykkja bannlögin, án þess að sjá fyrir tekjum í stað áfengistollsins, og það gerði hann ekki fremur en aðrir þeir þingmenn er greiddu atkvæði með bannlögunum. Það eru lélegar málsbætur, að tilgangurinn hafi verið góður, þegar verið er að vinna óheillaverkin og hv. 5. kgk. þm. kemst ekki undan ábyrgðinni af því að vera að flytja hér tillögu til frestunar á bannlögunum, sem gæti orðið til þess að ónýta þessi merkilegu og gagnlegu lög. Vil eg því benda honum á þau orðin, sem honum munu vera sérstaklega minnisstæð, af vissum ástæðum, en það eru orðin: „Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá“.

Annars er það furðulegt, að hann skuli gera tilgang sinn að svo miklu umtalsefni.