18.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (380)

122. mál, frestun aðflutningsbanns

Jósef Björnsson:

Þótt eg teldi líklegt, að enginn skaði mundi hljótast af því fyrir fjárhagstímabilið, sem í hönd fer, að bannlögunum yrði ekki frestað, þá er eg ekki hv. framsögum. sammála um, að það hafi verið rakalítill spádómur eins og hann sagði. Hv. framsögum. hefir sjálfur tekið það fram, að skaðinn mundi ekki koma svo mjög niður á því fjárhagstímabili, þar sem menn hafa áætlað, að inn mundi koma 330 þús. kr. í toll það fjárhagstímabil frestunarlaust, og það hefir hv. framsögum. látið í ljósi, að ekki mundi vera fjarri sanni. Aftur hafa aðrir dregið það í efa, t. d. hv. ráðherra við 1. umr. fjárlaganna, svo um þetta eru skiftar skoðanir. Ef við göngum út frá reynslu síðustu ára. 180 þús. kr. áfengistolli á ári, þá verður mismunurinn fram yfir það, sem nú er áætlað, sára lítill eða einar 30 þús. kr. á fjárhagstímabilinu. Eg held því, að það hafi ekki verið nein fjarstæða þótt eg spáði því, að ekki væri ólíklegt að enginn skaði, eða jafnvel fjárhagslegur hagur mundi verða að því fyrir landssjóð að fresta ekki lögunum. Það getur verið, að menn líti svo á, að eg sé einsýnn í þessu máli. Slíkt má segja. Sínum augum lítur hver á silfrið.

(L. H. B.: Eg átti ekki við þingmanninn).

En eg lít svo á, að það sé bezt fyrir þetta mál, að því sé ekki hreyft, ekkert frestað. Fjárhagslegi skaðinn fyrir fjárhagstímabilið 1912—13 get eg ekki séð, að sé svo bersýnilegur, að ástæða sé til að setja hann fyrir sig og fresta lögunum af þeirri ástæðu. Eg hygg, að það megi finna leiðir til að fylla skarðið 1912 eða 1913, sé um nokkurt skarð að ræða fyrir þann tíma, og því þurfi vegna vandræða í þá átt engin frestun að eiga sér stað. Þess vegna get eg ekki annað en endurtekið það, að frá mínu sjónarmiði ætti engin frestun að eiga sér stað En eigi að fresta, þá tek eg fremur styttri frestinn.