24.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í B-deild Alþingistíðinda. (385)

86. mál, sjúkrasamlög

Sigurður Hjörleifsson:

Hér liggur fyrir frumvarp um sjúkrasamlög og lítum við nefndarmenn svo á, að hér sé um merkilegt mál að ræða, og þess vert að deildin taki því vel.

Við fyrstu umræðu var nákvæmlega skýrt frá aðalefni málsins og virðist mér því ekki þörf á að fara mörgum orðum um það og því síður sem nefndarálitinu fylgir yfirlit og athugasemdir frá landlækni við hverja grein frumvarpsins og það í heild sinni.

Fyrsta grein frumvarpsins greinir frá hvað sjúkrasamlag sé. Önnur grein segir, að stjórnarráðið lögskrái sjúkrasamlagið, þegar þau hafa uppfylt viss skilyrði og þriðja grein telur upp þessi skilyrði.

Hér væri um allmikið fjárframlag að ræða frá landsjóðs hálfu, ef sjúkrasamlögin yrðu almenn og er vert að benda á þetta sérstaklega.

Í frumvarpinu er farið fram á, að landsjóður leggi fram tvær krónur fyrir hvern félaga, en það hefir nefndinni þótt of hátt og hefir því komið með þá breytingartillögu, að tillag þetta sé fært niður í krónu handa samlagi í kaupstað og kr. 1,50 handa samlagi í sveit og er það gert með tilliti til þess, að erfiðara og dýrara er að leita læknis í sveit en kaupstað, enda gert til þess að hvetja sveitirnar til að mynda slík samlög.

Lengra álítur nefndin ekki hægt að fara, en þetta virðist vera landsjóði algerlega hættulaust. Það er ekki hætt við að mikið þjóti strax upp af samlögum þessum, en á hinn bóginn er vonandi að þeim fari fjölgandi smátt og smátt,

Til leiðbeiningar vil eg geta þess, að í því landi, sem mest er af þessum samlögum, þar er þó ekki nema þriðjungur íbúa í þeim.

Þá má sjá á tillögunni, sem við höfum gert, að okkur þótti vafasamt hvort rétt væri að láta ákvæðið um ákveðnar árstekjur ná til sveitanna. Það er örðugt að ákveða árstekjur manna í sveit eins og nú stendur, enda getur verið hætta á því, að sjúkrasamlagið fái ekki hæfa forstöðumenn, ef skilyrðin eru mjög þröng fyrir rétti manna til að vera í félögunum.

Enn virtist nefndinni rétt að heimila stjórnarráðinu að lögskrá sjúkrasamlög í sveit, þó ekki sé ákveðið í lögum þeirra að dagpeninga skuli greiða.