24.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í B-deild Alþingistíðinda. (388)

86. mál, sjúkrasamlög

Ráðherra (Kr. J.) :

Eg kannast við það, að þessa útgjaldaauka fyrir landsjóð muni ekki gæta á næsta fjárhagstímabili, en eg vildi benda á þetta, vegna þess, að það kemur svo iðulega fyrir, að gjöld eru lögð á landsjóðinn í hinum og þessum frumv., án þess menn geri sér grein fyrir því eða hafi athugað það nægilega. Að því er snertir ákvæði 77. gr. fátækralaganna, skal eg geta þess, að þau voru sett vegna þess, að það kom oft fyrir, að nauðsynleg útgjöld lögðust á einstaka hreppa, svo há, að þeir gátu ekki staðist þau, svo að við lá, að þeir kæmust á vonarvöl. Aðallega kom þetta fyrir, þegar koma þurfti sjúklingum, sem hreppurinn átti að standa straum af, einkum geðveikum mönnum, á útlend hæli, með dýru meðlagi. Af þessari ástæðu voru þau ákvæði 77. gr. sett, að hreppar skuli að eins greiða 200 kr. af kostnaði við sjúkrahúslegu þurfalinga, en landsjóður það, sem fram yfir er. Eru þetta því alt aðrar ástæður, en hér er um að ræða. Eg álít mjög varhugavert að fella þetta ákvæði úr gildi. Þess eru fleiri en eitt dæmi, að hreppar hafi, áður en það varð að lögum, fengið að kenna óþyrmilega á því að hafa sjúklinga á dýrum útlendum hælum, og það svo, að hreppum hefir jafnvel legið við gjaldþroti.