06.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í B-deild Alþingistíðinda. (39)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Stgr. Jónsson:

Eg verð að svara hv. þm. V.-Skaft. nokkrum orðum. En auðvitað get eg ekki svarað spurningum hans með öðru en svörum símastjóra, því að eg er ekki sjálfur sérfræðingur í þessu efni. Hann heldur því enn fram, sem ómótmæltu af mér, að útvega þurfi „kabel“- skip, ef símaslit skyldu koma fyrir í sundinu milli Vestmannaeyja og lands. Eg tók það fram þegar í framsögu ræðu minnar, að þetta er ekki rétt. Símastjórinn hefir lýst því yfir, að hann hefði öll tæki til þess að gera við símaslit hér heima. Til þess má nota hvort sem vill heldur mótorbát eða botnvörpuskip, eftir því hvort auðveldara er að ná í. Eg tek þetta fram af því það getur skift máli í áliti almennings og vitanlega væri það galli og gerði símasamband miklu óaðgengilegra, ef útvega þyrfti sérstakt „kabel“- skip, ef síminn slitnaði. Sömuleiðis vil eg benda á það, að hv. þm. V.-Skaft. mintist aldrei neitt á reksturskostnað við loftskeytasamband, þegar hann andmælti því að taka símasamband fram yfir það. En eg gat um það þegar í fyrstu ræðu minni, að þetta er aðalatriðið fyrir okkur, sem kjósum fremur síma, hversu rekstur símasambands er miklu ódýrari en rekstur loftskeytasambands. Eg sýndi glögglega fram á þetta.