24.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í B-deild Alþingistíðinda. (390)

86. mál, sjúkrasamlög

Sigurður Hjörleifsson:

Eg skal ekki þræta um 77. gr. fátækralaganna, enda liggur hún ekki fyrir nú. Eg mintist að eins á hana af því að tilrætt var um hana í nefndinni. Annars finst mér, að það sem hv. ræðumenn hafa sagt bendi til þess, að þeir tímar muni koma, að minni þörf verði á fjárframlögum úr landsjóði samkv. þessari gr. fátækralaganna, en nú er, t. d. benti hæstv. ráðherra á það, hversu kostnaðarsamt það hefði verið fyrir hreppana áður fyrri, að koma geðveikum mönnum á útlend hæli og leggja með þeim þar. Nú gerist þess ekki þörf lengur, þar sem nú er komið upp geðveikrahæli hér í landinu. Sömuleiðis gera menn nú hér í landinu vandasama skurði, sem ekki var unt að gera hér áður fyr. Af þessum ástæðum hlýtur þörfin á fjárframlögum til einstakra hreppa að minka. Og hvað sem öðru líður, þá er það víst, að þessi þörf minkar að sama skapi sem sjúkrasamlögin verða almennari og félagatala þeirra hærri. Við það færist talsverður kostnaður af hreppunum yfir á samlögin, og að sama skapi minka framlög landsjóðs til hreppanna. Það er því augljóst, að þó að útgjöld landsjóðs til samlaganna aukist eftir því sem samlögin verða almennari, þá hlýtur viðgangur þeirra að draga talsvert úr fjárframlögum landsjóðs til hreppa samkv. 77. gr. fátækralaganna.