29.04.1911
Sameinað þing: 2. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í B-deild Alþingistíðinda. (4)

Tilkynning um framlengda þingsetu konungkjörinna þingmanna

Ráðherra (Kr. J.):

Þegar eg mintist á þetta mál í fyrradag við hæstvirtan forseta, þá var það í því skyni gert, að hann væri ekki í vafa um, hverja þingmenn bæri að kveðja til sameinaðs þings. En úr því að þetta mál hefir verið tekið hér á dagskrá, þá vil eg nú tilkynna þinginu það, sem hér fer á eftir. Eg átti von á því í fyrstu, að þessu þingi yrði lokið eigi síðar en í lok aprílmánaðar. En þegar snemma á þingi var það orðið ljóst, að svo gæti ekki orðið. Þá kom til athugunar sú spurning, hvenær þingsetutími hinna konungkj. þingmanna væri útrunninn. Á þessu gat verið nokkur vafi, því að það er ekki alveg auðgert að skera úr því, frá hvaða degi beri að telja umboð þeirra. Sumir líta svo á, sem umboð þeirra hafi byrjað 29. apríl 1905, því þá var konungsúrskurðurinn gefinn, þar sem hinir konungkjörnu þingmenn voru tilnefndir. Aðrir telja umboð þeirra frá 3. maí, því að þá var gefið bréf það, sem tilkynti útnefningu þeirra. Enn aðrir líta svo á, að þingmenskuumboð byrji 1. júlí, og eg er einn meðal þeirra, er svo vilja líta á málið. Eins og kunnugt er, hafa konungkj. þingmenn átt sæti á þingi alla tíð síðan 1845, því að þeir sátu fyrst á ráðgjafarþingunum. Hinir fyrstu konungkj. þingmenn munu hafa verið skipaðir árið 1844, þannig að þeir áttu að taka sæti á þinginu, sem kom saman 1. júlí 1845, þá byrjaði starfstími þeirra. Á sama hátt hefir þetta verið síðan 1874, er stjórnarskráin gekk í gildi. Konungkj. þingmenn voru skipaðir á miðjum vetri 1875, en áttu ekki að taka til starfa fyr en alþingi kæmi saman 1. júlí sama ár. Þessvegna lít eg svo á, að umboð konungkj. þingmanna byrji 1. júlí og endi 30. júní 6 árum síðar og þá er umboð núverandi konungkj. þingmanna ekki út runnið fyrri en 30. júní í sumar. En af því að nokkur vafi getur leikið á þessu og af því að það var sýnilegt, að þetta þing mundi dragast fram í maímánuð, þá áleit eg réttast að fá þingsetutíma hinna konungkj. þingm. framlengdan með sérstökum konungsúrskurði. Eg lít svo á, að þetta sé ekki ný útnefning og þurfi málið því ekki að koma til kjörbréfanefndar. Eg hefi nú fengið áminstan konungsúrskurð, og er hann svo hljóðandi:

Frederik hinn Áttundi, af guðs náð Danmerkur konungur, Vinda og Gauta, hertogi í Slésvík, Holtsetalandi, Stórmæri, Þéttmerski, Láenborg og Aldinborg.

Vér veitum yður með bréfi þessu sem ráðherra Vorum fyrir land Vort Ísland vald til þess að samþykkja í Voru nafni, að yfirstandandi alþingi megi setu eiga svo lengi sem þörf verður á, þó eigi meir en 4 vikur fram yfir 8 vikna tíma þann, er heimilaður er í 3. grein stjórnarskipunarlaga 3. október 1903 um breyting á stjórnarskrá um hin sérstaklegu málefni Íslands 5. jan. 1874, og ennfremur vald til þess í voru nafni að segja þingi slitið að liðnum hinum lögheimilaða reglulega þingsetutíma, eða síðar á 4 vikna fresti þeim, er áður er nefndur, þegar eigi er lengur þörf á að lengja þingið.

Ritað á Amalíuborg, 25. marz 1911. Undir vorri konunglegu hendi og innsigli.

Frederik R.

(L. S.) Kristján Jónsson.

Til

herra Kristjáns Jónssonar riddara af Dannebrog, Vors ráðherra fyrir Ísland.

„Indstillingen bifaldes“, — en tillagan var, að umboð núverandi konungkjörinna þingmanna skuli gilda til loka þessa þings, eða meðan þing þetta situr.

Úrskurðurinn segir þannig, að starfstími núverandi konungkjörinna þingmanna sé framlengdur, þar til þessu þingi er lokið. Eg gjörði þetta fyrir tryggingarsakir, ex tuto, einmitt af því að eg hafði heyrt hreyft vafa um það, hvenær umboði þeirra væri lokið. Á hinn bóginn sá eg, að það væri hið mesta óráð að skifta um konungkj. þingmenn að eins viku til hálfum mánuði áður en þingi lýkur. Þeir hafa tekið þátt í öllum störfum þingsins og sitja í nefndum, og ef ætti nú að fara að taka nýja menn í þeirra stað, þá mundi það verða mikil röskun á störfum þingsins. Því áleit eg þetta hið eina rétta og tiltækilega. Enda hygg eg það vera í samræmi við vilja beggja flokka á þinginu. Eg hefi skoðað það svo, að það væri sameiginleg ósk háttvirtra þingmanna, að útnefning nýrra konungkjörinna þingmanna fari ekki fram fyrri en næstu kosningar eru um garð gengnar; því að það má ætla að almennar kosningar fari fram á næsta hausti vegna stjórnarskrárbreytingar þeirrar, sem þingið hefir með höndum. Hefði ný útnefning farið fram nú þegar, þá hefði umboð hinna nýju konungkjörnu þingmanna orðið að gilda um næstu 6 ár. Eg sé ekki að neitt ákvæði stjórnarskrárinnar sé því til fyrirstöðu að fara að eins og hér er gert. Það má jafnvel skilja 14. gr. svo, sem hún heimili þetta beina leið. Þar stendur nefnilega, að umboð konungkj. þingmanna gildi „venjulega fyrir 6 ára tímabil.“ Þetta orð „venjulega“, í danska tekstanum „ordentligvis“, bendir í þá átt, að undantekningar megi eiga sér stað. Nú hefi eg gjört grein fyrir því, hversvegna eg hefi ráðið konungi til að gefa þennan úrskurð, sem eg hefi fyrir nokkrum dögum skýrt forsetum þingsins frá.