15.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í B-deild Alþingistíðinda. (404)

92. mál, brúargerð á Jökulsá

Stefán Stefánsson (6. kgk.):

Háttv. flutningsm. þessa máls tók það fram í framsöguræðu sinni, að þessi á, Jökulsá á Sólheimasandi, væri það eina vatnsfall, sem nú yrði mönnum að bana. (Gunnar Ólafsson: Nei.) Eg skrifaði upp eftir honum orðin, en hann hlýtur að hafa sagt þau í ógáti. Mig furðaði annars á því, að háttv. flutningsm., sem er sjálfur Skaftfellingur, skyldi segja annað eins og þetta, þar sem alkunnugt er, að nærfelt allri sýslunni er skift niður í smá skákir af ófærum stórfljótum, að baki hennar eru hraun, öræfi og jöklar, en framan við hana eyðisandar og hafnlaus brimótt strönd. Það er því ljóst, — og í því er eg hinum háttv. flutningsm. fyllilega samdóma, — að íbúar þessarar sýslu eru manna verst settir hvað samgöngur snertir, og þessvegna er auðvitað ekki nema sanngjarnt, að alt sé gert, sem unt er, til þess að greiða fyrir þeim, og þá liggur að sjálfsögðu fyrst fyrir að brúa þau af hinum mörgu illu vatnsföllum sýslunnar, sem tiltök er að brúa

Eg er sammála hinum háttv. þm. Ak. í því, að bæði Héraðsvötnin og eins Eyjafjarðará séu miklu fjölfarnari yfirferðar en þessi á, sem hér er um að ræða, en hún fellur á vestur-takmörkum sýslunnar, og er því í alla staði sanngjarnt að mönnum væru opnaðar dyr inn í hið stórfagra og mikilfenglega hérað með því að brúa hana, ef það á annað borð er hægt. Mundi það eigi að eins verða beinlínis til stórhagræðis sýslubúum, en hér er að öllum líkindum um mikinn óbeinan hagnað að ræða. Um leið og Skaftafellssýsla er opnuð, mundi ferðamannastraumurinn til landsins vaxa að miklum mun, því hvergi gefur að líta Ísland í allri sinni dýrð nema í Skaftafellssýslu einni.

Eg tel sjálfsagt, að nefnd verði sett í málið, og getur sú nefnd þá athugað áætlanir og teikningar, og annað það er máli þætti skifta. En ekki tel eg heppilegt, að málinu verði vísað til fjárlaganefndar hér í deildinni, því hún mun að vanda hafa nóg að starfa