15.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í B-deild Alþingistíðinda. (405)

92. mál, brúargerð á Jökulsá

Gunnar Ólafsson:

Eg skal ekki tala langt mál að sinni.

Eg er þakklátur hinni háttvirtu deild fyrir undirtektir hennar í málinu, og þá sérstaklega þeim orðum hv. ráðherra, að þangað beri að snúa sér, sem þörfin sé mest. Háttv. þm. Ísafj.kaupst. var líka hlyntur málinu, jafnvel þótt mér skildist á honum, að fé væri ekki fyrir hendi til þess að framkvæma þetta nauðsynjaverk. Eg er líka samdóma hæstv. ráðherra um það, að þá gengur illa, ef ekki verður hægt að brúa eina á á fjárhagstímabili, og þeir menn, sem örvænta um, að slíkt komist í framkvæmd, geta sannarlega ekki haft mikla trú á framtíðinni. En eg fyrir mitt leyti er nú svo bjartsýnn, að halda það, að fjárhagsástandið muni batna svo, áður en langt um líður, að ekki þurfi þessvegna að stöðva nauðsynleg þjóðþrifa fyrirtæki. — En það er ekki þar fyrir svo að skilja, að mér detti í hug að lasta varfærnina — síður en svo. —

Eg tók það fram í upphafi máls míns, að eg sæi ekki nauðsyn á nefnd í málið, en telji háttv. deild þess þörf, get eg fyrir mitt leyti gengið inn á það.

Það getur verið, að eg hafi viðhaft orðin, sem hv. 6. kgk. vildi eigna mér — það man eg reyndar ekki glögt —, en það sem eg að minsta kosti vildi sagt hafa var það, að á þessi væri einhver hin mannskæðasta hér á landi.

Það gladdi mig hve vingjarnlegum orðum háttv. 6. kgk. þm. fór um Skaftafellssýslu; hann hefir líka skoðað sýsluna sjálfur, og hefir glögt auga fyrir því, sem fagurt er. —

Viðvíkjandi því, er háttv. þm. Akureyrar sagði, að mikið tillit yrði að taka til þess, hvort árnar væru mjög umfarnar eða ekki, þá vil eg taka það fram, að engu síður ber að taka tillit til þess, hversu hættulegar þær eru.

Eg gleymdi einu áðan, sem eg ætlaði að benda á, sem sé því, að áin liggur í miðju læknishéraði, og hefir ekki ósjaldan komið fyrir, að hún hefir tept læknisvitjun, og gagnvart liggur fjölbygt hérað, og einhversstaðar verður að halda opnum dyrum, þar sem sjóleiðin er bönnuð.

Eg vil að lokum taka það fram, til skýringar þeim, sem eru kvíðnir við fjárhaginn, og halda, að hér sé þingið að vinna sér um megn, að það er alls ekki ætlast til þess, að fé til fyrirtækisins verði veitt, fyr en þing og stjórn telur að fært sé.