15.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í B-deild Alþingistíðinda. (406)

92. mál, brúargerð á Jökulsá

Sigurður Stefánsson:

Mér virðist ekki ástæða til, að nefnd sé sett í málið, þar sem ekki getur komið til mála, að fé verði fyrir hendi næsta fjárhagstímabil, og hvaða ástæða er annars til að setja nefnd í þetta mál, sem virðist liggja svo ljóst fyrir.

Önnur brú hefir einnig verið á dagskrá, sem sé á Rangá. Mun þó vera meiri þörf á brú á Fúlalæk. Það virðist bezt að láta málið hvíla sig þar til fjárlögin koma úr neðri deild.

Það er ónærgætni af kjördæmum að heimta fjárframlög, en vera andvígir flestum nýjum skattálögum, vilja byrgja tekjulindirnar, sem þarf að opna til þess að koma fjárhagnum í viðunanlegt horf. Menn verða að hafa hug á að auka skattana, eftir því sem hinir fábrotnu atvinnuvegir leyfa, en binda ekki landssjóði þær byrðar að viðlagasjóður étist upp.

Það er reynsla með þessar brýr, að þegar búið er að samþykkja lög um þær, þá er það skoðað sem loforð frá landssjóðs hálfu, að hún skuli koma upp á næsta fjárhagstímabili. Mér virðist það kenna nokkurskonar lævísi við landssjóðinn, þegar verið er að bera slík frumvörp, sem ekki er hægt að fullnægja, en sem binda að nokkru leyti hendur síðari þinga.