06.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í B-deild Alþingistíðinda. (41)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Stgr. Jónsson:

Þegar eg mintist á þetta atriði áðan, talaði eg fyrir nefndarinnar hönd, en þó ekki skuldbindandi fyrir hana. Eg lýsti því yfir, að það væri skoðun mín, að rétt væri að álit símastjóra fylgdi þessari fjárbeiðni, ef nefndin ætti að taka hana til nýrrar yfirvegunar. Sömuleiðis sagði eg, að nefndin gæti ekki tekið beiðnina til yfirvegunar, meðal annars af því, að sýslubúar hefðu ekki æskt að fá símann á þessu ári. Hv. flutningsmaður upplýsti það, að símastjóri væri á móti þessu máli, og að ástæðan væri sú, að þessi símalagning mundi raska því „skema“, sem hann hefði lagt um talsímalagningar hér á landi. En þessu „skema“ má einmitt ekki raska. Símastjóri getur kastað ábyrgð á þingið, ef það brýtur í bága við það „skema“, sem hann hefir lagt. Auk þess er óheppilegt að fara fram á þessa fjárveitingu í fjáraukalögum. — Í sambandi við þetta vil eg geta þess, að mér leiðist að svo mætur maður, sem hv. þm. V.-Ísafj., skuli fylla flokk þeirra manna, sem saka símastjóra um það, að hann hljóti að líta einstrengingslega og ekki óhlutdrægt á málið. Hvaða ástæða er til að núa honum því um nasir, að hann sé af einhverjum ósæmilegum hvötum á móti loftskeytum. Mætti ekki með sama rétti drótta þessu að hinum, sem með loftskeytunum eru?