28.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í B-deild Alþingistíðinda. (414)

42. mál, vitagjald

Kristinn Daníelsson:

Eg skal að eins taka það stuttlega fram, að mér finst nefndin ekki hafa fært nægilega ástæðu fyrir að lækka þetta 5 krónu gjald. Þegar þess er gætt, að þetta er ekki goldið nema einu sinni á ári, en 5 krónur hins vegar lagleg upphæð, þá gerir það hvorki til né frá fyrir skipseigendur eða útgerðarmenn, hvort þeir greiða einni krónu meira eða minna. Þá munar ekki mikið um slíkt, en það dregur sig saman fyrir landsjóð, ef alstaðar er haldið utan að því, er hann á að fá. Eg er því mótfallinn þessari brtill. Eg felli mig betur við, að gjaldið sé 5 krónur en 4 krónur.