06.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í B-deild Alþingistíðinda. (42)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Jósef Björnsson:

Eg ætla að segja örfá orð um þá br.till., er eg hefi borið fram, þrátt fyrir að eg hefi afráðið að taka hana aftur. En það gjörði eg af þeirri ástæðu, að framsögumaður sagði fyrir hönd nefndarinnar, að hún mundi fús á að taka þá fjárveitingu, sem br.till. fer fram á, upp á fjárlögin fyrra árið. Í lögunum um bændaskóla, sem samþykt voru árið 1905, er það tekið fram að kenna skuli leikfimi við bændaskólana. Það sama er tekið fram í reglugjörð fyrir bændaskólana frá 1908. Það er því auðsætt, að hér hefir orðið dráttur á framkvæmd á lögskipuðu atriði. Og þegar Nd. setti inn á fjáraukalögin fjárveitingu til leikfimishúss á Hvanneyri, þá virtist það sjálfsagt, að veita samtímis fé til leikfimishússbyggingar á Hólum, enda tekur fjárlaganefnd neðri deildar á einum stað í nefndaráliti sínu um fjárlögin fram, að sjálfsagt sé að gera skólana jafna. En það er þar sem hún er að rökstyðja tillögu um að færa niður styrk til verklegs náms við Hólaskóla. En vegna þess að fjárlaganefndin hér í deildinni lét í ljósi við mig, að hún vildi beiðast undan að farið væri fram á þessa fjárveitingu á fjáraukalögunum vegna þess hve fjárhagurinn væri þröngur í bráð, þá vil eg verða við þessari beiðni og tek tillöguna aftur, að svo stöddu, og geri mig ánægðan með þá yfirlýsingu nefndarinnar, að hún muni styðja það að þessi fjárveiting verði samþykt á fjárlögunum. Eg er nefndinni samdóma um það að fjárhagurinn sé svo óglæsilegur, að ástæða sé til að draga úr nauðsynlegum fjárveitingum. —

Um leið ætla eg að minnast örlítið á annað atriði í fjáraukalögunum og gera grein fyrir atkvæði mínu um það, eg á við háskólann. Þótt eg af þjóðlegum ástæðum vildi feginn óska, að hann kæmist strax á fót, þá býst eg samt ekki við að eg geti greitt atkvæði með fjárframlagi til háskólans að þessu sinni, og er það af þeirri ástæðu, sem eg nefndi áðan, nefnilega að eg kannast fullkomlega við það, að við verðum að fara sem allra sparlegast með fé landsins, af því féþröngt sé í bráðina.