24.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í B-deild Alþingistíðinda. (423)

14. mál, heyforðabúr

Gunnar Ólafsson:

Hv. framsögumaður tók það fram, að sér og nefndinni væri það ekkert kappsmál, að þetta frv. næði fram að ganga. En af því mér fanst hann sem eðlilegt var eftir tillögum nefndarinnar, líta að eins á betri hlið málsins, en ekki hina verri, þá tek eg til máls, því að mér finst frv. ekki eiga það skilið að fara með óslitnu lofi í gegnum deildina. Eg lít svo á, að þetta frv. geti ekki komið að neinu gagni. Sem dæmi þess, að slík lög koma aldrei að tilætluðum notum, má nefna lögin um kornforðabúr, er samþykt voru á síðasta þingi. Þau hafa reynst alveg þýðingarlaus, og eru þau þó miklu aðgengilegri en þetta frv. Þó að menn kaupi korn og geymi það í forðabúri sínu, þá fyrnist það ekki, því að það má nota það árið eftir til manneldis. Alt öðru máli gegnir um heyforðabúr. Þau verða að hafa mjög stórar birgðir, ef trygging á að vera fyrir því, að þær nægi fyrir heila sveit, eða að hugsanlegt sé, að þær verði að nokkru gagni. Flutningskostnaður á heyi er mikill, og ef forðinn er ónotaður og verður að geymast ár frá ári, þá rýrnar heyið og skemmist. Lögin eru vitanlega svo óaðgengileg, að fáir mundu nota heimildina, sem í þeim er veitt, það játaði hv. framsögumaður líka. En til hvers er þá að vera að samþykkja þau? Það getur hugsast, að forðabúr komist upp á stöku stað. T. d. eru í mörgum sveitum einn eða fleiri heyjamenn, sem eiga stór-fyrningar ár frá ári, og er þá ekki óhugsanlegt, að þeir vildu láta hreppinn eða landsjóð geyma heyið fyrir sig, borga fyrningu heyjanna, húsaleigu, umsjón o. fl., en það kæmi bygðarlaginu að litlum notum. En svo er annað atriði í þessu máli, sem er athugavert. Ef slík heyforðabúr yrðu stofnuð, þá er alt af hætt við, að bændur fari að reiða sig á þau, og setja skepnurnar á í trausti til þeirra, og hvar mundi það enda? Eg hygg að það mundi betra, að bændur reiði sig sem mest á sjálfa sig, kraft sjálfra sín, en ekki á aðra. Yfirleitt miðar andinn í lögunum ekki að því, að efla sjálfstæði bænda, heldur að hinu, að auka eftirlit með þeim, gera þá öðrum háða eins og börn. Slík lög sem þessi, gera, eða hjálpa til þess að gera menn ófrjálsari og ósjálfstæðari en þeir eru og eiga að vera. Ekki eru slík lög heldur vegurinn til að gera menn hygnari búmenn. Þvert á móti. Það væri miklu fremur sú rétta aðferð, að búnaðarfélögin hugsuðu um, hvað gera mætti til að efla þekkingu bænda, svo að þeir kynnu betur fótum sínum forráð með heyásetningi og annað því líkt. Það mundi affarasælla en að búa til lög, eða að styðja að því með lögum, þessu sífelda eftirliti með bændum, sem búnaðarfélag landsins og einkum ráðunautar þess klifa á sí og æ. Enda kannast nefndin í rauninni við, að þetta sé rétt. Það má lesa það út úr nefndarálitinu, að hún er nauðug með frv. Hún „ræður eftir atvikum hv. deild til að samþykkja það“. Hún er hér um bil viss um, „að ekki geti hlotist tjón“ af frv., en efast um, að það „geti komið að verulegum notum“. Þetta styður mitt mál, að þeir, sem um frv. hafa fjallað, eru því ekki hlyntari né ákveðnari með því en svo, að þeir halda, að það verði ekki að tjóni. Hvers vegna er þá verið að búa þetta til?

Mér fyrir mitt leyti finst eins og eg hefi áður tekið fram, að með þessu frumvarpi, sé hálfgert tekið fram fyrir hendur bænda. Það var og minst á það áðan, að heimild þessi mundi lítt verða notuð, en því er nú stundum ver, að margir menn dansa kannske í hálfgerðri blindni eftir því, hvað svokallaðir sveitarhöfðingjar segja og gera í hinum ýmislegu málefnum, er fyrir koma. Það er því miður of títt, að menn láta leiðast til fylgis um þau mál, er þeir hafa ekki athugað og skilja ekki, og svo gæti einnig hér orðið. Gegnum alt þetta, korn- og forðabúr og heyásetningareftirlitið, — finst mér gægjast sama, óviðkunnanlega hugsunin, að hið opinbera þurfi endilega að stuðla til þess, að alt sé skoðað, sem nöfnum tjáir að nefna, t. d. þreifað ofaní hrygginn á hverri einustu kind, á hverju heimili. Bezt gæti eg trúað, að þannig lagað fyrirkomulag, yrði hvorki vinsælt, né kæmi að tilætluðum notum, og væri þá til lítils barist. —

Það hefir verið tekið fram, að frumv. þetta geti haft í för með sér talsverðan kostnað fyrir landssjóðinn, og er það dagsanna. Líka getur vel verið, að ýmsum þætti gott, að láta landssjóð kosta heyin sín, en eitt atriðið þykir mér ekki hafa verið nógu greinilega tekið fram, sem sé það, að við þetta fyrirkomulag getur líka komið töluverður kostnaður á sveitarsjóðina, og tel eg það ekki hættulaust, þeir hafa nógu margar byrðar að bera samt. Það er sitthvað fleira, sem mér þykir athugavert við frumvarp þetta, en það borgar sig líklega varla að tína það alt upp. Eg er viss um, að nefndinni hlýtur að vera kunnugt um hina og þessa annmarka, sem á þessu frumv. eru, og held eg að hún gæti sjálf sálgað því, sér að skaðlausu, því nefndarálitið er ekki ákveðnara með frumv. en það.