24.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í B-deild Alþingistíðinda. (424)

14. mál, heyforðabúr

Kristinn Daníelsson:

Eg get tekið undir það, sem hv. framsögumaður sagði, að varla sé von um mikið gagn af frv. þessu, þótt það kunni að verða samþykt, en eg stend heldur ekki upp til þess, að vinna því mein á nokkurn hátt, því að þau sár, sem hér á að lækna, eru svo stór, að eg vildi með engu móti verða þar þrándur í götu; það eru einungis nokkrar athugasemdir við ytri frágang frumvarpsins, sem eg vildi leyfa mér að gera.

Í 1. greininni þyrfti að laga nokkuð orðalagið, og svo fæ eg ekki betur séð, en að ósamræmis kenni nokkuð milli annarar og þriðju greinar, að því er til kemur atkvæðisréttar á fundunum.

Í 6. grein stendur, að sveitarsjóður skuli greiða vexti af höfuðstólnum. Er það meiningin, að þeir eigi að greiða vexti af öllum forðanum? En seinna er tekið fram, að landssjóður eigi að borga af þeim hluta, sem ekki er borgað af.

Í þessu finst mér koma fram ósamkvæmni, og á það vildi eg benda.