07.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í B-deild Alþingistíðinda. (431)

67. mál, réttur kvenna

Eiríkur Briem:

Nefndin leggur til, að frumv. þetta verði samþ., þó með tveimur breytingum. Önnur breytingin er að eins orðabreyting, í staðinn fyrir „konur“ komi „kvenmenn“. Að vísu merkir orðið „konur“ að réttu lagi kvenfólk yfirleitt í mótsetningu við karlmenn, en í nútíðarmáli er „konur“ jafnaðarlega notað um eiginkonur.

En svo er efnisbreyting við 3. gr. frv.; meiri hluti nefndarinnar leggur til að kvenfólk hafi ekki rétt til prestsembætta. Það eru ekki fáir, sem hafa þá skoðun, að það samrýmist ekki grundvallarreglum hinnar evangelísku kirkju, að konur séu í prestsembættum. Að vísu getur nefndin ekki aðhylst þessa skoðun, en af því, að þeir menn eru til, sem líta svo á, þá áleit nefndin, að trúartilfinningar þeirra gætu orðið særðar, og það taldi meiri hluti nefndarinnar varhugavert. Enda mundi það ekki verða þýðingarmikill réttarmissir fyrir konur, þó að þessi undantekning væri gerð.