10.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Steingrímur Jónsson:

Eg skal leyfa mér að fara nokkrum orðum um breytingar þær við frumvarpið, sem fram hafa komið síðan 2 umræðu hér, og nefndin hefir talað sig saman um.

Þá er fyrst breytingartillaga á þingskjali 593 frá háttv. 3. kgk. um símalagningu til Vestmannaeyja. Hér hafa orðið skiftar skoðanir í nefndinni, og hefir hún klofnað um það mál. Við aðra umræðu sagði eg álit mitt á þessu máli og ætla ekki að fjölyrða um það nú, en mun gefa þessari tillögu atkvæði mitt. Þá er breytingartillaga á þingskjali 598 frá háttvirtum þm. Skagfirðinga um að inn í 7. grein bætist nýr liður á undan 2. lið, þannig hljóðandi: til aðgerðar á gamla skólahúsinu á Hólum alt að 3000 kr.

Háttvirtur tillögumaður hefir gert grein fyrir því við nefndina og ráðherra, að það þyrfti að gera við gamla skólahúsið, og er þetta réttmæt beiðni, en áætlanir þær sem liggja fyrir um þessa aðferð enn alls óábyggilegur. Þá er breytingartillaga á þingskjali 600 frá háttvirtum þm. Vestur-Ísfirðinga, þar sem hann fer fram á að veittar séu 800 kr., til vara 500 kr., til þess að reisa Jóni Sigurðssyni minnisvarða á fæðingarstað hans, Rafnseyri, í sambandi við hátíðahald þar 17. júní. Nefndin hefir komið sér saman um að vera með varatillögunni.

Á þingskjali 602 er breytingartillaga frá hæstvirtum ráðherra um að hækka upphæð þá sem ætluð er til byggingar húss handa vitaverðinum á Siglunesi úr 2000 kr. uppí 2500 kr.

Tillagan er bygð á því, að 2000 kr. séu allsendis ónógar, samkvæmt upplýsingum, sem fengnar eru hjá umsjónarmanni vitanna, og getur nefndin eftir atvikum greitt atkvæði með þessari hækkun.

Þá er breytingartillaga á þingskjali 603 frá nefndinni sjálfri, þar sem hún fer fram á að veittur sé styrkur til Bókmentafélagsins til þess að gefa út bréf Jóns Sigurðssonar alt að 500 kr. Bókmentafélagið hefir tekist á hendur að gefa út þessi bréf, en bókin hefir orðið stærri en ætlað var í fyrstu og vantar því fé til útgáfu á hér um bil 7 örkum. Nefndin mælir með þessari tillögu, svo bókin geti komið öll út á réttum tíma, og vonar að deildin verði henni sinnandi.

Þá er enn breytingartillaga á þingskjali 617 frá 6 háttvirtum þingdeildarmönnum, þar sem þeir fara fram á að burtu falli liðurinn við B I—III, það er tillagið til háskólans.

Nefndin hefir enga ályktun gert í þessu máli, og verður tillagan væntanlega rædd í deildinni, og hefi eg ekki ástæðu til að tala um hana að þessu sinni.