31.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í B-deild Alþingistíðinda. (440)

22. mál, æðsta umboðsstjórn Íslands

Steingr. Jónsson:

Eins og nefndarálitið ber með sér, hefi eg ekki getað orðið samferða háttv. meðnefndarmönnum mínum, að því er snertir frumv. þetta, og verð eg hiklaust að ráða hinni hv. deild til þess að fella það.

Laun embættismanna hér á landi eru yfir höfuð mjög lág, og væru varla viðunandi, ef menn hefðu ekki fasta tryggingu fyrir eftirlaunum, og ef eftirlaunin væru afnumin, þyrfti auðvitað að hækka talsvert laun embættismannanna. Að því er snertir þetta mál, — lækkun eftirlauna ráðherra, — þá stendur þar að vísu nokkuð öðruvísi á en með eftirlaun annara embættismanna, og eg gæti frekar fallist á þá breytingu að afnema eftirlaun ráðherra, ef hans laun væru þá hækkuð um leið, og jafnvel heldur veita biðlaun.

Á þinginu 1909 var svipað frumvarp á ferðinni um þetta efni, og var þá ekki álitið fært að afnema eftirlaunin, vegna ákvæðanna í 2. og 4. gr. stjórnarskrárinnar, og eg hygg að enn sé hér sami vandinn á ferðum.

Eg vil leyfa mér að geta þess hér í þessu sambandi, að nú er á ferðinni gegnum hv. neðri deild stjórnarskrárfrumvarp, sem telja má víst að nái fram að ganga. Í því frumv. er það ákvæði, að þrír skuli vera ráðherrar á landi hér, og í sambandi við þá breytingu verður þessi spurning auðvitað athuguð nákvæmlega, og meðfram af þeim ástæðum er mál þetta í alla staði ótímabært hér í deildinni. — Það gæti verið meining í því, að afnema alveg eftirlaunin, það skal eg játa. en þessar þúsund krónur á ári finst mér nokkurskonar skálkaskjól.

Fyrsta ástæðan, sem meðmælendur þessa frumv. bera fram, er sú, að eftirlaunabyrði þjóðarinnar sé að verða þung. Eg held nú samt, að þessi ástæða sé að mestu gripin úr lausu lofti. Við þekkjum það allir, að hvenær sem einhver góður starfsmaður landsins lætur af starfa sínum, þá hefir alþingi óðara veitt honum eftirlaun. Vegna hvers? Einungis vegna þess, að bæði þjóð og þing líta svo á, að hann eigi fyllilega skilið að fá viðurkenningu fyrir vel unnið æfistarf. Það verður því ósanngjarnara og óskiljanlegra, að nú skuli vera farið fram á afnám eða lækkun eftirlauna embættismanna, þar sem nú á þessum tímum er verið af miklu kappi að afla alþýðumönnum ellistyrks — einskonar eftirlauna, í gegnum ýmsa sjóði. Og vel gæti ég trúað því, að sú yrði raunin á, að hver einasti ráðherra mundi snúa sér til þingsins í eftirlauna-erindum og mundi það sjálfsagt ganga greiðlega; mér finst að í þessu efni geti hver stungið hendinni í sinn eigin barm.

Þá er eg algerlega ósamþykkur meðnefndarmönnum mínum í því atriði, að 1000 kr. á ári séu nægilega há eftirlaun fyrir ráðherra. Þau eru þvert í móti alveg óhæfilega lág. Það sjá allir hvílík ósanngirni í því liggur, að gamall stjórnmálamaður, sem hefir slitið sér út í þarfir þjóðarinnar, og sem vegna þess hvað þingið ber mikið traust til hans verður ráðherra, á að fá einungis 1000 krónur í eftirlaun, það kalla eg algerlega óhæfilega meðferð á trúnaðarmanni þjóðarinnar.

Því hefir verið haldið fram, að þjóðin hafi eindregið óskað þess, að eftirlaun embættismanna væru afnumin, og þá sérstaklega eftirlaun ráðherra. Eg skal nú ekki í þetta sinn fara út í það, á hve miklum rökum því um lík ummæli eru bygð, en hitt þori eg að fullyrða, að eftir þessu frumv., í þeirri mynd og það hér liggur fyrir, hefir þjóðin aldrei óskað.