31.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í B-deild Alþingistíðinda. (441)

22. mál, æðsta umboðsstjórn Íslands

Lárus H. Bjarnason:

Eg heyrði ekki alt, sem háttv. framsögum. hafði eftir mér, en eg ætla að vona, að það hafi verið rétt. Árið 1902 bar spurning þessi á góma í neðri deild við umræðu frv. til stj.skipul. frá 1903, og get eg látið nægja að vísa til þingtíðindanna 1902 B. bls. 10.

Eg vildi þá engin eftirlaun hafa, en nú er sú leið ekki fær, því að ráðherrann á samkv. gildandi stjórnarskrá heimtingu á eftirlaunum. Eigi að breyta til nú, og það er ekki ástæðulaust, sérstaklega ef á að fara að skapa þrjá ráðherra alveg að þarflausu, þá verður annað hvort að láta sömu reglu gilda um eftirlaun ráðherra sem annara embættismanna, eða jafnvel hækka þau enn frekar.

Það eru einkum svokallaðar praktiskar ástæður, sem gætu mælt með því að láta aðrar reglur gilda um eftirlaun ráðherra en annara embættismanna. Þeir þurfa ekki sérstakan undirbúning undir embættið og þeir sitja venjulega stutt að völdum. Þeir ættu því ekki að þurfa svo há eftirlaun sem aðrir, og sérstaklega er ástæða til að hafa þau ekki há, eigi að fara að þrefalda tölu ráðherra. Og allra sízt ættu þau að vera svo há, að menn sæktust eftir embættinu fyrir það eitt. Því þarf nú raunar ekki að gera á fæturnar um þá, sem taka eftirlaun samkv. eftirlaunalögunum frá 1904, en fyrir hina, sem taka eftirlaun samkv. tilsk. frá 1855, getur orðið góður styrkur að því að hafa verið ráðherra nokkur ár. Eg get því vel fylgt því, að eftirlaun ráðherra séu lækkuð frá því sem nú er, t. d. því, að hann fái að eins 1000 kr. eftirlaun, en hann verður þá jafnframt að halda þeim eftirlaunum, er hann kynni að hafa unnið til sem embættismaður í annari stöðu. Hitt að láta ráðherra, er hefði verið embættismaður áður, engin eftirlaun fá fyrir ráðherraárin væri að gera honum lægra undir höfði en áður embættislausum manni og bryti auk þess lög á honum, því að hefði hann haldið sínu fyrra embætti eða flutt í annað embætti en ráðherraembættið, þá hefðu eftirlaun hans aukist með hækkandi embættisaldri.