31.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í B-deild Alþingistíðinda. (446)

22. mál, æðsta umboðsstjórn Íslands

Sigurður Hjörleifsson:

Það hefir verið tekið fram flest af því, er eg vildi sagt hafa og eg sé því ekki ástæðu til að endurtaka það.

Ráðherraeftirlaunin eru nú orðin svo há, að eitthvað verður til bragðs að taka. Í þessu frumvarpi er ekki farið fram á annað en það, sem nauðsyn krefur. Fjölgun ráðherra gerir það alveg nauðsynlegt. En það er hart, að ráðherra, sem orðinn er gamall og slitinn, sé illa settur fjárhagslega eftir það, að hann er farinn úr embættinu, og því er betra að hafa þessi litlu eftirlaun, sem ákveðin eru í frumvarpinu, en ekki.

Eg vil sérstaklega víkja máli mínu að hæstv. ráðherra. Ef eg hef skilið hann rétt, þá tók hann fram, að hann myndi ekki gera tilkall til ráðherraeftirlauna, er hann slepti embættinu, en að hinn lagalegi réttur sinn væri þar með ekki útkljáður, og að það gæti verið, að hann ætti rétt til ráðherraeftirlauna, þó hann tæki við hinu fyrra embætti sínu aftur. Ef svo er, þá er slíkt ekki meðmæli með að fresta þessu máli, heldur með að flýta því sem mest. Mér finst raunar ekki mikilsvert atriði í þessu efni, hvort hann hefir rétt til meiri eða minni launa eftir frumvarpinu, en get ekki litið svo á, að það hafi nokkur áhrif á eftirlaun hans, þar sem hann hefir tekið við embætti sínu áður en lög þessi ganga í gildi.