31.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (448)

22. mál, æðsta umboðsstjórn Íslands

Framsögum. (Jósef Björnsson):

Eg vildi aðeins gera örlitla athugasemd sérstaklega út af því, sem háttv. 5. kgk. þm. sagði um 2. málsgr. 1. greinar frumvarpsins. Hann mintist á, að það væri ekki tekið fram í greininni, hvernig ætti að reikna eftirlaun ráðherra, ef hann hefði verið í öðru embætti, áður en hann tók við ráðherrastöðu. Eg skal lýsa því yfir, að þetta hefir ekki komið til umræðu í nefndinni. En nefndin mun taka það til athugunar og má koma með breytingartillögu við 3. umræðu málsins, ef svo sýnist. Það er auðsætt, að þetta atriði getur haft mikla þýðingu að því er snertir upphæð eftirlaunanna. Segjum t. d. að embættismaður taki við ráðherrastöðu og sé ráðherra aðeins 2 ár. Þá mundu þessi 2 ár hækka til muna meðaltal launanna í síðastliðin 5 ár og ef eftirlaunin væru miðuð við þetta meðaltal, samkv. eftirlaunal. frá 1904, þá er sýnilegt, að af því stafaði allveruleg hækkun eftirlaunanna.

Út af orðum háttv. 4. kgk. þm. skal eg mótmæla því í kröftugasta máta, að frumvarpið sé á nokkurn hátt skálkaskjól. Margir hafa sterka hvöt til að afnema ráðherraeftirlaun alveg, en álíta það ekki heimilt eftir stjórnarskránni og þá liggur auðvitað næst að lækka þau, úr því að ekki er vegur til að geta stigið sporið til fulls. Í því er fullkomið samræmi. Að þessu leyti er eg alveg sammála ummælum þingm. Snæfellinga, núverandi 5. kgk. þm., á þingi 1903, sem standa í þingt. frá því ári. Eg skal leyfa mér að lesa þau upp með leyfi hæstv. forseta. Þar segir svo um þetta mál:

„Eg finn það að frumvarpinu, að ráðherranum eru ætluð eftirlaun“ — (Alþt. B. 1903, dálki 180) — og enn stendur í ræðu sama þingmanns: „En af því að eg hefi haldið því fram, að ráðherrann ætti engin eftirlaun að hafa, þá er eg að sjálfsögðu með því, að hann hafi sem minst eftirlaun“. (Alþt. B. 1903, dálki 194).

Það er einmitt þetta, sem vakir fyrir þeim, sem vilja ekki hafa nein ráðherraeftirlaun. Þeir þykjast ekki geta kipt þeim, burt alveg, og þá er að lækka þau í bráðina.