04.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (453)

22. mál, æðsta umboðsstjórn Íslands

Steingr. Jónsson:

Eg á hér breytingartillögur á tveim þingskjölum, sem sé þgsk. 458 og þgsk. 470. Það er sama tillagan, sem eg hefi endurbætt og tek eg þá tillöguna á þgsk. 458 aftur, en ber að eins fram hina síðari tillögu, hún er bæði fyllri og betur orðuð.

Eg gat um stefnu mína í þessu máli við fyrstu umræðu þess og hefir hún ekki breyzt síðan.

Eg álít frumvarpið ekki sæmandi, eins og það liggur nú fyrir og hefi þess vegna komið með breytingartillöguna. Í gildandi lögum er ákveðið, að konungur geti ákveðið ráðherra-eftirlaun alt að 3000 kr. og finst mér ekki rétt, að tekinn sé af konungi sá réttur. Aftur virtist mér rétt, að hámarkið sé látið standa eins og nú er, og er það ekki of hátt sett 3000 krónur.

Ef frumvarpið væri samþykt eins og það liggur nú fyrir, þá mættu þau lög ekki sjást fyrir utan þetta land.

2000 kr. eftirlaun er þó nokkuð í áttina og mega þau alls ekki vera lægri, enda má búast við, að oftast verði farið eftir hámarkinu, og eru þau laun sannarlega ekki of há, ef ráðherra á nokkur eftirlaun að hafa.

Það tel eg rétt, eins og tekið er fram í breytingartill. á þgsk. 478, að ráðherra-eftirlaunin séu ákveðin sem viðbót við önnur eftirlaun, sem ráðherra kann að bera fyrir önnur embættisstörf og er sjálfsagt, að það sé skýrt tekið fram, svo ekki valdi tvímæla síðar.

Annars mun eg greiða atkvæði móti þessum lögum, að þau gangi út úr deildinni, og sérstaklega ef breytingartillaga mín er feld.