04.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í B-deild Alþingistíðinda. (459)

22. mál, æðsta umboðsstjórn Íslands

Lárus H. Bjarnason:

Eg ætla ekki að bera mig eða önnur „peð“ saman við hinn mikla þjóðkjörna þingmann Vestur-Skaftfellinga eða hin miklu þingstörf hans. En eg hélt, að jafnvel hann mundi hafa vit á að líta nokkuð á það, hvaða verk væru unnin af þingmönnum og hvernig þau væru unnin, en einblíndi ekki á hitt með hverju móti þeir væru kallaðir á þing. Honum þótti svo gott, þetta sem hann sagði, var alt af að brosa að því, að ég hef ekki brjóst á að ónýta fyrir honum ánægjuna. Að eins skal eg minna hann á, að hér er ekki um afnám eftirlauna að ræða, eins og hann sagði, heldur aðeins um minkun eftirlauna 1 embættismanns og það er heldur ekki satt, að menn skiftist um þetta mál sem konungkj. og þjóðkj. Hv. ráðherra er móti lækkun, en eg hefi verið og er jafnvel með afnámi eftirlauna ráðh. ef mögulegt væri fyrir stjórnarskránni.

Eg skil frumvarpið eins og háttv. 6. kgkj. lýsti því, enda átti eg aðal-þátt í að brtl. á þingsk. 487 kom fram. En úr því, að svo skýrir menn eins og háttv. 1. kgkj., 6. kgkj., 4. kgkj. og hæstv. ráðherra hafa hver sinn skilning á greininni, bendir það til þess að betra sé að athuga hana enn betur. Eg hefi þessvegna komið mér saman við háttv. framsögumann um að fá málið tekið út af dagskrá, til þess að reyna að leysa þennan hnút svo að komist verði hjá að gera nokkrum ójöfnuð. Eg vona, að enginn háttv. þingdeildarmanna vilji vísvitandi stofna til ójafnaðar, jafnvel ekki gagnvart embættismönnum, en eins og frv. er orðað nú, mundi það gjöra embm. rangt til.