04.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í B-deild Alþingistíðinda. (468)

22. mál, æðsta umboðsstjórn Íslands

Ari Jónsson:

Eg vil leyfa mér að segja hér nokkur orð út af ummælum, sem orðið hafa út af breytingartillögu á þingskjali 507.

Samkvæmt breytingartillögu á þingskjali 507 er svo ákveðið, að þau ár, sem maður er ráðherra, skuli ekki vera talin við útreikning eftirlaunanna og því er haldið fram af háttvirtum þingmanni Vestur-Ísfirðinga og háttvirtum öðrum þingmanni Skagfirðinga, að ráðherrann fái hér 100 krónur fyrir hvert embættisár í stað að eins 20 króna ella.

Hér er þá fyrst að gæta, hvort eftir launin eru reiknuð eftir eldri eða yngri eftirlaunalögunum og þó þau væri reiknuð eftir „20 króna lögunum“, þá hefir gleymst aðalatriðið. Setjum að maður hefði verið ráðherra í 4 ár, sá sem hafði útlit til að hækka í stöðu, setjum að það sé sýslumaður, sem er búinn að vera svo lengi í embætti, að hann fái nú meir en 1000 kr. í eftirlaun. Eftirlaun hans hækka um 400 krónur, þegar hann er búinn að vera 4 ár í ráðherraembætti, en ef hann hefði verið í sama embætti, þá hefir hann auk þeirra 20 króna, tækifæri til að ná í annað betra embætti, sem gæfi honum talsvert hærri eftirlaun. Fyrir menn, sem ætla að taka tillit til eftirlaunanna er ekki aðalatriðið 100 eða 20 krónur, heldur hitt hvað hann missir í með tilliti til hækkunar í stöðu.

Eg vil líka benda á orð háttvirts þingmanns Vestur-Ísfirðinga, þar sem hann talar um, að maður myndi ekki hika sér við að taka við ráðherraembættinu vegna þessa mismunar á eftirlaununum. Það er þó mismunur á, hvort hann á að hafa 100 eða 1000 krónur. Það er hlægilegt að borga þeim, sem hefir verið embættismaður áður ekki nema 100 krónur, en þeim sem hefir verið kaupmaður áður 1000 krónur í eftirlaun fyrir ráðherrastöðuna. Næsta skrítið, að taka tillit til fyrri stöðu mannsins, þegar ræða er um eftirlaun ráðherra.