10.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (47)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Augúst Flygenring:

Eg vil taka það fram strax, að í breytingartillögu minni á þingskjali 593 er tveim orðum ofaukið. Þar stendur að til símalagningarinnar eigi að veita fyrra árið, en þetta „fyrra árið“ á að falla burt.

Eins og menn muna, lagði stjórnin það til á síðasta þingi, að sími yrði lagður alla leið til Vestmannaeyja. Þessi sími komst þó ekki lengra en til Garðsauka. Sími til Vestmannaeyja var feldur fyrir heimskulegt ofurkapp þess flokks hér á þingi, sem frá því er símamálið upphaflega var flutt inn á þing, hefir verið óvinveitt öllum símalagningum í stærri stíl.

Eg hefi ekki nent að kynna mér ástæður Nd. á fyrra þingi fyrir því að fella þessa fjárveitingu, en hér í þessari háttv. deild var það látið heita svo sem stjórnin ætlaði að útvega miklu ódýrara samband við eyjar þessar með loftskeytum.

En hefir þá stjórninni, sem frá fór fyrir skemstu, lukkast þetta? — Eg held ekki. Það hefir verið sagt, að við ættum kost á tveimur loftskeytastöðvum fyrir 44 þús. kr., en um það liggur þó ekkert tilboð, sem hægt er að byggja á, og hér mun enginn vera mættur frá Marconifélaginu eða öðru félagi, sem hefir umboð til að semja. Vér höfum þessvegna enga tryggingu fyrir, hvað þessar stöðvar muni kosta.

Athugi maður þær einu áætlanir, sem fyrir liggja um þessar firðritanir — þær sem landsímastjórinn hefir gert, öðrum er ekki takandi neitt mark á — þá er það bert, að stofnkostnaður við loftskeytin verður strax miklu dýrari en við símann. — Líklega nemur mismunurinn 5 — 10 þús. kr.

Þó að stjórnin væri loftskeytunum mjög fylgjandi, hefir hún ekki getað komið með neina áætlun, er sýni að loftskeytasambandið sé ódýrara. — Síður en svo. Hefir í rauninni ekkert annað fyrir sig að bera en bréf frá Brüssel. dagsett 2. nóv. 1910, þar sem aðeins er áætlað um ýmsan kostnað, án þess að það sé bindandi tilboð, og þess utan eru látnar í té ýmsar upplýsingar um loftskeytastarfrækslu m. m.

Hér liggur fyrir þinginu áætlun þess manns, sem er þessu kunnugastur allra manna, sundurliðuð kostnaðaráætlun um símalagningu austur. Það er fjarstæða að segja, að slíkt sé gripið úr lausu lofti, eins og sumir menn gera. Í þessari kostnaðaráætlun segir hann, að hægt sé að leggja einfaldan síma til Vestmannaeyja fyrir 28500 krónur, en jafnframt segir hann að mikið geti sparast af þeim 22000 krónum, sem þar eru áætlaðar fyrir sæsímanum, ef veður verður gott, meðan verið verður að leggja hann. En hann heldur því líka fram, að sjálfsagt sé að gera símann svo vel úr garði, að fólk verði ánægt með hann og leggur því til, að hann verði hafður tvöfaldur og yfirleitt svo góður, sem hann er beztur annarstaðar hér á landi, og býst hann, við, að hann muni kosta 37000 krónur. Eg get ekki leitt hjá mér það sem þessi maður leggur til, því að það er bygt á reynslu og þekkingu. Fastur embættismaður hlýtur að finna skyldu hjá sér til að leggja það eitt til, sem hann álítur skynsamlegast, hagkvæmast og tekjumest. Munurinn á stofnkostnaði við símasamband og loftskeytasamband mundi verða c. 5 þús. kr. En eg legg ekki svo mikið upp úr því. Eg legg mest upp úr hinu, að símastjórinn hefir í bréfi, sem dagsett er þ. 21. síðastl. mán. sýnt með órækum tölum, hversu mikill munur hljóti að verða á afrakstrinum, arðinum. Af bréfinu sést það bert, að landssjóður hlýtur að fá stórar tekjur af símasambandi; að öllum líkindum eru þær þar áætlaðar of lágt fremur en hitt. Símastjórinn gerir ráð fyrir að ábatinn af símasambandi muni verða c. 3500 kr., en 3 þús. kr. tekjuhalli af loftskeytum, aðallega vegna miklu meiri reksturskostnaðar. Að vísu er þetta einungis áætlun, en þetta er þó áætlun þess manns, sem mest er á að byggja í þessu efni. Þó loftskeytastöðvarnar yrðu miklu meira notaðar heldur en á er gizkað, þá er altaf þess að gæta, að bæði stofn- og reksturskostnaður er miklu meiri við loftskeytasamband heldur en við símasamband. En auðvitað mál er það, að þessi kostnaður, stofnkostnaður og reksturskostnaður, er í sjálfu sér þýðingarminna atriði í þessu máli heldur en vilji og óskir fólksins. Ef kjósendur óskuðu eftir loftskeytasambandi, og trygging væri fyrir því að menn yrðu ánægðir með það, þá væri rangt að setja kostnaðinn fyrir sig. En fólk vill talsíma og mundi strax heimta talsímasamband, þó að loftskeytasamband kæmist á, enda játa allir að talsíminn hafi mikla yfirburði fram yfir firðritun. Talsímasamband hefir viðlíka yfirburði yfir loftskeytasamband sem heilbrigður maður hefir yfir heyrnarlausan mann og mállausan, þó hann kunni að skrifa. Hversvegna skyldi þessi uppfundning, talsíminn, hafa rutt sér svo mjög til rúms að hann er alstaðar lagður við hliðina á ritsímum og loftskeytastöðvum? Auðvitað vegna þeirra stóru yfirburða, sem hann hefir yfir hvorttveggja. Það er áreiðanlegt, að hér á landi gera menn sig aldrei ánægða með loftskeytasamband, því menn heimta að geta talað saman, enda verður tilgangnum altaf betur náð með samtali. Þetta sést einnig bezt af því, að talsíminn hefir gefið mestar tekjur hér á landi, miklu meiri en ritsíminn. —

Eg get verið fáorður um mótbárurnar, sem eg veit að fram muni koma. Þær eru sumar hverjar svo öfgakendar, að þær falla um sjálfar sig. Það hefir verið sagt að sæsíminn hljóti að verða fyrir viðlíka óskunda eins og síminn milli eyjanna í Færeyjum. En hér er ólíku saman að jafna. Straumurinn milli eyjanna í Færeyjum er svo harður, að hann fer 10 mílur á vökunni, eins og straumharðasta á, en hér er straumurinn aldrei meiri en svo, að hann fari 3 mílur á vökunni. En straumurinn er orsökin til þess að síminn slitnar, við það að hann berst fram og til baka á botninum og nuddast sundur. Þá hefir verið bent á það, að botnvörpuskip mundu eigi láta símann í friði. Það getur að vísu borið við, að botnvörpuskip slíti síma, en þó má benda á það, að fjöldi síma liggur yfir Norðursjóinn og er þar urmull af botnvörpuskipum, sem fiska þar alt árið, en samt kemur það örsjaldan fyrir að þau skemmi símann. Í Norðursjónum er nálega altaf fiskað með nótum fast við botn. En hérna er aðallega fiskaður þorskur, og hann heldur sig fjær botninum heldur en flatfiskur. Þegar fiskað er með nót við botninn milli lands og eyja, þá hafa öll botnvörpuskip trékefli á vörpunum vegna þess, að botninn er grýttur, en vörpurnar velta á keflunum yfir steinana. Það er því vonandi óhætt um það, að síma yrði enginn verulegur háski búinn af botnvörpuveiðunum, en þær eru það eina, sem eg hefi óttast, að gæti orðið símanum að grandi. En þó svo illa tækist til að síminn slitnaði, þá þurfa, eins og símastjóri hefir bent á, engin vandkvæði að verða á því að setja hann saman aftur. Það má gera með mótorskútu; því að síminn er ekki nema 25 ton á þyngd og kæmist því vel fyrir í skútu. Frá landi má altaf reikna út, hvar slitið er. Það eru því öfgar, að það þurfi að kosta stórar upphæðir að bæta símann, ef hann slitnar. Sé nú, eins og eg hefi bent á, símasamband hagkvæmara og tekjumeira og notasælla í alla staði en loftskeytasamband, því geta menn þá ekki komið sér saman um að kjósa það? Mér finst kenna æðimikils ofurkapps hjá þeim mönnum, sem vilja binda sig við loftskeyti, þar sem þeir hafa ekkert annað á að byggja en vonina um skeyti af hafi, og jafnvel sú von hefir ekkert við að styðjast. Því hafa þau skip, sem sigla og veiða hér við land, ekki loftskeytaútbúnað? Þau fara líka fram hjá Peterhead og öðrum stöðum, þar sem loftskeytastöðvar eru. Skyldu þau öll vera að bíða eftir að loftskeytastöð komi í Vestmannaeyjar? Það hefir verið tekið réttilega fram af símastjóra, að gagn gæti verið að loftskeytastöð hér í Reykjavík, einkum í sambandi við væntanlega loftskeytastöð á Grænlandi, en hann hefir líka bent stjórninni á, að sjálfsagt væri að komast að hagkvæmum samningum áður en slík stöð væri bygð. Eg skal svo ekki orðlengja þetta frekar, en vil minna mótstöðumenn mína á að yfirvega málið skynsamlega; eg veit, að þeir muni kannast við að eg byggi á góðum grundvelli.