03.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í B-deild Alþingistíðinda. (490)

130. mál, tollalög

Framsögumaður (Aug. Flygenring):

Þetta frumvarp, sem hér liggur fyrir, hefir inni að halda örlitlar breytingar á núgildandi tolllögum. Sú breyting, sem teljandi er, er sú, að tollurinn á hverju kaffipundi hækkar um 2 aura og á hverju sykurpundi um 1 eyri. Önnur tollhækkun frumv. hefir naumast teljandi aukning á tekjur landsins í för með sér. Eg býst við, að hækkunin á tolli á kaffi og sykri auki tekjur landssjóðs um 60 þús. kr. Hvað breyttill. nefndarinnar snertir, eru þær að eins orðabreytingar. Við nefndarmennirnir viljum kalla mæli „lítra“ og tvípund „kílogram“. Í 1. gr. er skotið inn nokkrum orðum, á eftir orðunum „er bryti skipsins“ í 5. línu síðustu málsgreinar, sem eiga að tryggja það, að viðkomandi yfirvöld geti rannsakað hjá fleyrum en bryta skipsins, hvaða vörur þeir hafa meðferðis.

Eg fyrir mitt leyti og nefndin, sem ég naut þeirrar virðingar að eiga sæti í, felst því á frumvarpið og telur þær tollhækkanir, sem það fer fram á, réttmætar. En eg skal bæta því við frá eigin brjósti, að eg tel það alt of litla hækkun, sem frumvarpið ákveður. Mér er með öllu óskiljanlegt, hví þeir menn, sem komið hafa bannlögunum á og einkum þó þeir, sem hindrað hafa frestun á framkvæmd þeirra, hafa ekki flutt tillögur um meiri tolllhækkun á þessum vörum, því að það eru þær vörur, eru geta aukið tekjur landssjóðs, svo að um munar. Það hefir verið regla hjá okkur og eg vildi óska, að sú regla héldist lengi, að hafa tollstofnana fáa, en tollana þeim mun hærri á þeim vörum, sem tollaðar eru. Þetta er regla, sem allar mentaðar þjóðir leitast við að fara eftir. Það hefir verið reynt, að tolla neyzluvörur og munaðarvörur, en hafa þá sem minsta á nauðsynjavörum og enga á framleiðsluvöru. Það er undarlegt, en það er helzt svo að sjá, sem sumir háttvirtir þingmenn vilja ekki sjá, að það verður ekki náð tekjum í landssjóð nema með því að leggja skatta eða einhvern veginn lagaðar auknar álögur á landsmenn. Eða það lítur út fyrir, að aðrir vilji að vísu lögleiða tolla, en gera það þannig, að fólk sé dulið þess, að það greiði tollana, — vilja ekki láta það vita, hvað um er að ræða. En eg vona, að þjóðinni skiljist, að það er ljótur leikur, sem hér er verið að leika. Eg sagði, að mig furðaði á því, að þeir, sem greiddu atkvæði gegn frestun bannlaganna, skuli ekki hafa farið fram á meiri tollhækkun á þessum vörum en hér er gert og þetta er því undarlegra, er þess er gætt, að í nágrannalöndunum er tollurinn á þessum vörum miklu hærri. Þegar þetta frumvarp er orðið að lögum, verður tollurinn 7½ eyrir á sykri og 15 aurar á kaffi. Í Noregi er sykurtollurinn 10, Svíþjóð 15½, Þýzkalandi 8½, Austurríki 15½ Frakklandi 12, Hollandi, sem producerar mjög mikinn sykur, 19 aur. á pundinu. Í Noregi er kaffitollurinn 20 aurar, í Rússlandi 25 aurar, í Frakklandi 50 aurar, í Austurríki 35 aurar. Í Þýzkalandi hefir hann nýlega verið hækkaður úr 18 aurum upp í 27 aura. Hví getum við ekki fært tollinn eins upp og aðrar siðaðar þjóðir í kring um okkur? Hvort ætli sé nú betra, hyggilegra og hagfeldara að taka hálfrar miljón króna eyðslulán eða hækka þennan réttmæta og heppilega toll? Það er undarleg skammsýni að telja slíkt óhæfu, þar sem flestar aðrar þjóðir hafa miklu hærri toll á þessum vörum.