03.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í B-deild Alþingistíðinda. (493)

130. mál, tollalög

Eiríkur Briem:

Það var að eins lítil athugasemd, sem eg vildi gera út af ræðu hæstv. ráðherra og háttv. þm. V. Ísf. (Kr. D.) Það hefir, eins og kunnugt er, verið mikið deilt um heiti á metrakerfinu, hvort þau ættu að vera íslenzk eða ekki, eða hvort vér Íslendingar eigum að hafa þar sömu nöfn og aðrar siðaðar þjóðir. Í Hollandi og sumstaðar annarstaðar hefir verið reynt að taka upp innlend nöfn, en það mishepnast. Samgöngur við aðrar þjóðir eru miklar og tíðar og alþjóðaheitin urðu ofan á. Nú er svo ákveðið í íslenzkum lögum, að heitin skulu vera alþjóðaheitin, en stjórnarráðið getur þó ákveðið, eins og hæstv. ráðherra benti á, hver íslenzk heiti megi nota jafnhliða útlendu nöfnunum. Það var gert af þægð við einn mann í þinginu 1907 að leyfa þessu ákvæði að komast í lögin, en í þeim eru notuð hin alþjóðalegu orð og alþjóðalegu tákn, og er rangt að víkja frá því. Hér er um það atriði að ræða, hvort vér eigum að hafa nöfn, sem allir, hverrar þjóðar sem þeir eru, geta skilið eða ekki. En um íslenzku heitin er það að segja, að sum geta farið vel, sum illa. En það er að þeim, sem fara vel, að þau eru of óákveðin. Mælir hefir margar þýðingar, og úr því getur orðið ruglingur. Stika hefir margskonar merkingar. Orðið pund er og ekki íslenzkara en orðið kílógram. Eg álít það með öllu skakka stefnu, sem hér er haldið fram. Forfeður vorir á gullöldinni hikuðu ekki við að taka upp í málið ýms útlend orð t. d. orðið prest, biskup o. fl. Og þessi stefna bætir ekki íslenzkuna. Þetta verður að eins til þess, að menn gleyma því, sem er aðalatriðið í málinu og í hverju máli, sem er setningaskipunin og orðalagið alt. Auk þess er með öllu árangurslaust að ætla sér að standa gegn straumnum, því að svo framarlega sem viðskifti og samgöngur Íslendinga við aðrar þjóðir aukast, þá hljóta alþjóðanöfnin að verða ofan á. Auk þess eru nöfnin á metrakerfinu og fyrirkomulagið á sambandinu milli lengdar, rúmmáls og þyngdar hin dásamlegasta hugsmíð; nöfnin eru mjög einföld og óbrotin, því að latnesku nöfnin eru höfð á þeim hlutum þess, sem ganga niður á við, en grísku nöfnin á þeim, sem ganga upp á við. Þetta ruglast gersamlega, ef það á að fara að íslenzka nöfnin. Íslendingar hljóta að geta lært þessi alþjóðlegu heiti, sem eru alls 10 að tölu, ekki síður en aðrar þjóðir og sé eg ekki, því vér megum ekki taka þau upp, eins og þær.